Erlent

Sjö fórnarlömb heiðruð

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá athöfninni í París.
Frá athöfninni í París. Vísir/AFP
Francois Hollande, forseti Frakklands, leiddi minningarathöfn þeirra þriggja lögregluþjónanna sem létust í árásunum í síðustu viku. Forsetinn lagði eina af æðstu orðum Frakklands á líkkistur lögregluþjónanna. Heiðursorðan var stofnuð af Napóleon árið 1802.

Lögregluþjónarnir hétu Franck Brinsolaro, Ahmed Merabet og Clarissa Jean-Philippe.

„Þau dóu svo við gætum búið við frelsi,“ sagði Francois Hollande. „Þau dóu þar sem þau framfylgdu skyldu sinni, með hugrekki og reisn. Þau dóu sem lögregluþjónar.“ Þá fullvissaði forsetinn fjölskyldur lögregluþjónanna um að Frakkland deildi sársauka þeirra.

Myndband frá athöfninni má sjá hér að neðan.

Lík fjögurra gyðinga sem létu lífið í árásunum voru jörðuð í Ísrael í morgun. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, sagði þá hafa verið fórnarlömb haturs, samkvæmt BBC. Mennirnir fjórir hétu Yoav Hattab, Yohan Cohen, Philippe Braham og Francois-Michel Saada.

„Við getum ekki leyft það árið 2015, sjötíu árum eftir seinni heimstyrjöldina, að gyðingar séu hræddir við að ganga um götur Evrópu með bænahúfur," sagði Netanyahu.

Frá minningarathöfninni í Ísrael.Vísir/AFP
Íbúar Ísrael komu víða að til að taka þátt í athöfninni í tel Aviv, en öryggisgæsla var mjög mikil. Þá hefur Francois Hollande lofað hertu öryggi við skóla gyðinga og menningarstofnanir í Frakklandi. Allt að tíu þúsund hermenn og lögreglumenn munu bætast við þá fimm þúsund sem þegar sinna öryggi þessara staða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×