Íslenski boltinn

Formaður Þórs: Læknar hætta ekki mannorði sínu og ljúga

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Chuck í leik gegn Fjölni síðasta sumar.
Chuck í leik gegn Fjölni síðasta sumar. vísir/arnþór
Formaður knattspyrnudeildar Þórs, Aðalsteinn Ingi Pálsson, furðar sig á þeirri gagnrýni Chukwudi Chijindu að Þórsarar hafi ekki farið vel með sig síðasta sumar.

Chuck segir í Instagram-færslu í kvöld að það verði að segja sannleikann. Hann gefur síðan í skyn að Þórsarar hafi talað meiðsli hans síðasta sumar niður.

Er hann hafi komið heim til Bandaríkjanna hafi síðan komið í ljós að hann hafi þurft að fara í aðgerð sem hann er nú búinn að gangast undir.

Sjá einnig: Chuck sendir Þórsurum kaldar kveðjur

„Ég er ekki læknir frekar en aðrir stjórnarmenn Þórs en ég treysti læknastéttinni. Ég veit ekki af hverju læknar ættu að gefa honum, eða einhverjum öðrum, rangar upplýsingar," segir Aðalsteinn.

„Þessar aðdróttanir hans um að við getum stýrt því sem læknar segja eru auðvitað rugl. Það hættir enginn læknir mannorði sínu með því að segja ósatt við sjúkling. Ég veit ekki hvað hann hefur fyrir sér í þessu."

Aðalsteinn segir að Þórsarar hafi gert allt til þess að koma honum á fætur sem fyrst. Komið honum eins fljótt að hjá sjúkraþjálfurum og læknum og mögulegt var.

„Við meðhöndluðum hann af miklum heilindum. Við reyndum að vinna með honum og hann fékk að stýra ferðinni sjálfur. Hann kemur ekki inn í liðið fyrr en um mitt sumar. Það var aldrei pressa hjá okkur að hann færi af stað of snemma.

„Þó svo þetta komi mér á óvart þá hef ég ekkert nema gott að segja um þennan dreng. Hann var flottur og stóð sig vel fyrir félagið."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×