Körfubolti

Fannst ég verðskulda meiri hreinskilni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson verður örugglega áfram hjá Drekunum.
Jakob Örn Sigurðarson verður örugglega áfram hjá Drekunum. Vísir/Valli
„Þetta verður ansi langt sumarfrí. Maður verður að finna sér eitthvað að gera,“ segir Jakob Örn Sigurðarson, landsliðsmaður í körfubolta, í viðtali við Fréttablaðið en Jakob og félagar hans í sænska úrvalsdeildarliðinu Sundsvall Dragons voru sendir í sumarfrí á miðvikudagskvöldið.

Liðið tapaði þá í fjórða leik átta liða úrslita deildarinnar gegn Uppsala Basket en einvígið fór 3-1 fyrir Uppsala.

„Við enduðum tveimur stigum fyrir ofan þá í deildinni en þeir voru mun betri en við í þessari seríu. Þeir voru betri í öllum leikjunum. Við náðum eiginlega bara að stela einum sigri. Í heildina eru þeir með betri mannskap og fleiri góða leikmenn,“ segir Jakob Örn, sem tapaði með Sundsvall í þriðja skiptið á fimm árum í átta liða úrslitum.

„Þetta gerist alltaf annað hvert ár. Fyrsta árið töpuðum við í 8-liða, svo fórum við í úrslit og unnum, eftir það töpuðum við í 8-liða, svo fórum við aftur í úrslit í fyrra og nú þetta aftur. Ef við förum ekki alla leið finnst okkur greinilega bara betra að láta henda okkur út strax,“ segir Jakob Örn kátur í bragði og hrærir í súpu sem hann er að elda fyrir fjölskylduna.

Jakob Örn og Hlynur Bæringsson eru lykilmenn í liði Sundsvall.Vísir/Valli
Mjög erfitt fyrir áramót

Mikið gekk á hjá Drekunum á tímabilinu en félagið er í miklum fjárhagsvandræðum. Í lok október kom tilkynning frá sænska körfuknattleikssambandinu þar sem sagt var að Sundsvall fengi þrjá mánuði til að koma fjármálum sínum í lag ellegar fengi félagið ekki að taka þátt í deildinni næsta vetur. Með liðinu leika tveir aðrir Íslendingar, Hlynur Bæringsson og Ægir Þór Steinarsson.

„Þetta er búið að vera bölvað strögl – jafnt innan sem utan vallar. Kaninn fór heim eftir fjóra leiki og við spiluðum þetta bara á okkur Íslendingunum og Svíum. Það var mikið af ungum strákum sem var hent í djúpu laugina. Miðað við það getum við verið sáttir við árangurinn í deildinni,“ segir Jakob Örn, en utan vallar áttu leikmennirnir eðlilega erfitt.

„Þetta var aðallega erfitt fyrir jól, svona fyrst þegar þetta gerðist og í svona einn og hálfan mánuð eftir það. Eftir jól komumst við yfir þetta og byrjuðum að spila vel. Þá voru menn hættir að spá í þetta en menn eru samt alltaf að tala um þetta sín á milli. Það var í gangi allt árið.“

Ekki var alltaf komið hreint fram við Jakob.Vísir/Valli
Svikin loforð

Þrátt fyrir erfiðleika í fjármálum stóðu forsvarsmenn Drekanna við sitt þegar kom að útborgun í hverjum mánuði en það skiptir fjölskyldumann eins og Jakob miklu máli. „Þeir borguðu alltaf sitt og ég gerði auðvitað mitt. Þegar maður er með fjölskyldu hugsar maður fyrst um hana,“ segir hann.

Jakob er búinn að vera hjá Sundsvall í fimm ár og hefur liðið vel enda lykilmaður og algjör stjarna í deildinni. Samskiptin hafa verið góð á milli hans og yfirmanna félagsins en breyting varð á þegar þeir sögðu ekki alltaf satt og rétt frá í tengslum við peningamál félagsins.

„Það var nú stundum ekkert komið hreint og beint fram við mann. Það er svona það sem maður er helst svekktur með. Það var alltaf sagt að nú færi eitthvað að gerast eins og með styrktaraðila en það gerðist ekkert. Ég er búinn að vera hérna í fimm ár og fannst ég verðskulda meiri hreinskilni. Fyrstu árin hérna hafa verið fín en þetta er svona fyrsta árið sem mér fannst maður ekki vera að hugsa um alveg réttu hlutina. Maður var að láta hluti sem ekki eiga að hafa áhrif á mann gera það. Sérstaklega þar sem maður er með fjölskyldu,“ segir Jakob Örn.

Jakob Örn er lykilmaður í landsliðinu.Vísir/Stefán
Verður samt áfram

Þrátt fyrir samskiptabresti og erfiðleika utan vallar ætlar Jakob að vera áfram hjá Sundsvall á næsta tímabili hafi félagið áhuga og tök á því að halda honum.

„Ég er með samning út apríl núna og svo út næsta tímabil. Í rauninni verð ég áfram nema þeir geri ekki upp við mig. Ég er með klausu í samningnum um að ef þeir standi ekki við sitt innan ákveðins tíma geti ég farið. Eins og er þá verð ég áfram hjá liðinu – það er bara undir þeim komið hvað þeir gera. Ef þeir standa sig þá verð ég áfram,“ segir Jakob, sem hefur annars ekki miklar áhyggjur af því að finna sér nýtt lið í Svíþjóð enda árlega kjörinn einn af bestu leikmönnum deildarinnar.

„Maður kíkir ekkert í kringum sig þegar maður er með samning í körfuboltanum. Þetta er kannski aðeins öðruvísi en í öðrum íþróttum. Ég er samt alveg rólegur og hef engar áhyggjur af því ef ég þarf að finna mér lið í Svíþjóð. Ég er held ég sé með alveg nógu gott orðspor hérna í Svíþjóð og ætti að geta fundið mér nýtt lið,“ segir Jakob Örn Sigurðarson.


Tengdar fréttir

Hlynur: Meira en til í að vera áfram

Hlynur Bæringsson var valinn besti varnarmaður sænsku úrvalsdeildarinnar annað árið í röð. Hann segir stemninguna hjá Sundsvall vera skemmtilegri eftir að liðið lenti í fjárhagskröggum.

Uppsala sendi Drekana í sumarfrí

Sundsvall Dragons er úr leik í úrslitakeppni sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta eftir þriðja tapið gegn Uppsala Basket á útivelli í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×