Körfubolti

„Þurfum að passa upp á það að hafa gaman“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Rúnar er þjálfari Njarðvíkinga
Rúnar er þjálfari Njarðvíkinga vísir/dieogo

Rúnar Ingi Erlingsson segir að það hafi verið hans versta martröð að byrja illa sem þjálfari karlaliðs Njarðvíkur. Liðið hefur nú unnið fjóra leik í röð í Bónusdeildinni en fyrir tímabilið var því spáð í neðri hlutanum.

Fyrir tímabilið var Njarðvíkingum spá áttunda sæti í Bónusdeild karla. Liðið situr nú fjórða sæti deildarinnar einum sigurleik frá toppliðunum. Topplið Tindastóls hefur til að mynda leikið einum leik meira en Njarðvík.

Njarðvík byrjaði tímabilið á því að tapa fyrir Þór Þorlákshöfn með þremur stigum. Síðan þá hefur liðið unnið fjóra leik í röð og gegn erfiðum andstæðingum, Álftanes, Keflavík, Höttur og Valur.

„Að ná að tengja saman sigra er svo gríðarlega mikilvægt. Þessi spá og miðað við okkar hóp þá held ég að hún hafi ekkert verið alveg galin en mér fannst samt alveg gleymast að þessi fjögurra fimma manna kjarni, ef við tökum Veigar [Pál Alexandersson] inn í þetta en hann var að springa út í úrslitakeppninni, þá ert þú með leikmenn sem hafa sannað sig í deildinni og var hársbreidd frá því að komast í lokaúrslit á síðasta tímabili,“ segir Rúnar í Sportpakkanum í gærkvöldi.

Ekki verið með í síðustu tveimur leikjum

Einn besti leikmaður deildarinnar, Dwayne Lautier-Ogunleye hefur verið fjarverandi í síðustu tveimur leikjum liðsins vegna meiðsla. Þá hafa aðrir leikmenn stigið upp og liðsheildin í liðinu hefur verið áþreifanleg.

„Maður verður bara að hrósa strákunum. Ég trúi á það í þjálfun að samskipti skipta rosalega miklu máli og uppbyggjandi umhverfi. Við þurfum að passa upp á það að hafa gaman.

Um mitt sumar samdi félagið við Bandaríkjamanninn Julius Brown en hann lék aldrei leik fyrir liðið í deildinni. Brown náði ekki að sanna sig og var því ákveðið að semja við Khalil Shabazz í staðinn. Í dag er Khalil einn besti leikmaður deildarinnar.

„Hann er frábær leikmaður og líka bara toppnáungi sem er lykilatriði fyrir mig sem þjálfara, að vera með fólk sem mér finnst gaman að vera í kringum um,“ segir Rúnar. Nánar verður rætt við Rúnar í Körfuboltakvöldi á laugardagskvöld á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×