Körfubolti

Minnkuðu muninn um tuttugu stig á þremur mínútum gegn gamla liði Elvars

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Elvar Már lék gegn sínu gamla liði.
Elvar Már lék gegn sínu gamla liði. maroussi

Elvar Már Friðriksson lék með Maroussi í 80-81 tapi gegn sínu gamla liði PAOK í fimmtu umferð grísku úrvalsdeildarinnar í körfubolta.

PAOK var með yfirhöndina, tók svo vel fram úr í seinni hálfleik og leiddi með tuttugu stigum um miðjan fjórða leikhluta en Maroussi gerði strangheiðarlega tilraun til að stela sigrinum með stórkostlegum sprett undir lokin.

Staðan fór frá 55-76 þegar þrjár mínútur voru eftir, í 80-81 þegar sex sekúndur voru eftir.

PAOK tók leikhlé og teiknaði síðustu sóknina vel upp. Þeir léku á heimamenn, sem tókst ekki að brjóta áður en tíminn rann út. Lokaniðurstaða 80-81 PAOK sigur. Þetta var þriðji sigur liðsins í fyrstu fimm leikjunum, Maroussi hefur aðeins unnið einn og er í næstneðsta sæti deildarinnar. 

Elvar var lykilmaður hjá PAOK á síðasta tímabili, með 11,8 stig og 5,9 stoðsendingar að meðaltali í leik. PAOK endaði í 9. sæti deildarinnar, Maroussi í 10. sætinu. Hann skipti svo yfir í sumar.

Elvar hefur ekki verið í byrjunarliðinu en samt spilað 27,1 mínútu að meðaltali í fyrstu fjórum leikjunum. Þar hefur hann skorað 7,3 stig og gefið 7,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×