Körfubolti

Hlynur: Meira en til í að vera áfram

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hlynur er í miklum metum í Svíþjóð.
Hlynur er í miklum metum í Svíþjóð. Vísir/Daníel
„Ég get nú ekki sagt að ég hafi átt eitthvað sérstaklega von á þessu. Það er nú aðallega af því ég var ekkert að spá í þessu,“ segir HlynurBæringsson léttur og hló við. Hann var um helgina útnefndur besti varnarmaður sænsku úrvalsdeildarinnar annað árið í röð.

„Ef ég hefði hugsað um það þá hefði ég talið mig eiga möguleika fyrst ég vann nú í fyrra. Það er mjög gaman að fá svona viðurkenningar. Það gefur manni aukalega og kitlar egóið. Það er ágætt í hófi.“

Eftir að Hlynur fékk verðlaunin í fyrra átti hann ekki sinn besta leik í kjölfarið. „Það var hálfgert „jinx“ að fá þessi verðlaun. Það lak allt fram hjá mér fyrstu mínúturnar í leiknum.“

Hlynur og félagar í Sundsvall Dragons eru á fullu í úrslitakeppninni þessa dagana. Þar eru þeir 2-1 undir í rimmu við Uppsala en vinna þarf þrjá leiki til þess að komast í undanúrslit.

„Þetta lið var líklegast fyrir tímabilið en lenti svo í miklum meiðslum. Þeir eru sigurstranglegri í rimmunni en við eigum góðan möguleika. Við erum ekki hættir,“ segir Hlynur en ansi margir afskrifuðu Sundsvall er það lenti í miklum fjárhagsvandræðum fyrir áramót.

Fyrir vikið varð félagið að senda Bandaríkjamanninn í liðinu heim og hætt var við að fá liðsstyrk eftir áramót eins og annars hefði verið gert.

„Við erum ekki með mikla breidd en samt fínir. Þetta hefur verið öðruvísi áskorun eftir að forsendur breyttust svona hjá okkur. Það hefur verið önnur stemning og í raun léttara yfir mönnum. Það er svona „engu að tapa“-fílingur í mönnum. Við höfum allt að vinna. Það var mjög gott að ná fjórða sæti í deildinni eftir allt saman.“

Hlynur segir að það hafi verið dráttur á launagreiðslum síðan fjárhagsvandræðin byrjuðu. Launin hafi þó alltaf skilað sér á endanum.

„Þetta verður djöfulsins barátta hjá þeim í framhaldinu ef ég á að vera heiðarlegur. Það hefur ekki komið neinn sterkur styrktaraðili. Við hefðum alveg getað notað einn útrásarvíking núna. Það hefði líklega bara þurft einn til þess að bjarga þessu,“ segir Hlynur og bætir við að félagið hafi tapað fleiri styrktaraðilum en það hafi fengið enda var umræðan í kringum það mjög neikvæð í talsverðan tíma.

Landsliðsmaðurinn reiknar með því að félagið þurfi að keyra á svipaðan hátt næsta vetur og gert hefur verið seinni hluta tímabilsins enda ekki kominn neinn peningur. Sjálfur á hann eitt ár eftir af samningi sínum við félagið og hann er til í að virða hann enda líður honum vel í Sundsvall.

„Maður veit aldrei hvað gerist í þessum bransa. Ef þeir vilja halda mér þá er ég meira en til í að vera áfram. Það skiptir ekki öllu máli að vera í liði sem er líklegt til að vinna. Það skiptir líka máli að það sé gaman í vinnunni. Það eru fínir gaurar í liðinu og gaman hjá okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×