Innlent

Láta gamlan draum rætast um nám í hússtjórnarskóla

Kristján Már Unnarsson skrifar
Nokkuð er um það að konur á efri árum láti gamlan draum rætast og fari í hússtjórnarskóla. Eldri körlum er einnig velkomið að sækja um skólavist.

Þau kalla Handverks- og hússtjórnarskólann á Hallormsstað demantinn í skóginum en stúlkur á aldrinum 16 til 23 ára eru yfirgnæfandi í nemendahópnum á þessari haustönn.

„Það er allt aldursbil sem við tökum,“ segir Bryndís Fiona Ford skólameistari í samtali við Stöð 2. „Það er enginn, held ég, sem á ekki erindi hingað og margir sem láta stundum gamlan draum rætast og taka þátt í þessu skólastarfi hér.“

-Mynduð þið taka á móti miðaldra karli?

„Já, að sjálfsögðu. Þú ert bara velkominn að sækja um, ef þú hefur áhuga.“

„Þú ert velkominn að sækja um," svaraði Bryndís skólameistari spurningu um hvort skólinn tæki við miðaldra körlum.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Bryndís minntist þess þó ekki að miðaldra karl hafi sótt nám í skólanum. „En við fáum alveg eldri, þá aðallega konur, sem hafa kannski átt draum um að fara í þennan skóla áður fyrr og ekki farið.“ 

Elsti nemandinn á haustönn er kona um fimmtugt. Bryndís nefnir að grein eins og vefnaður höfði til margra eldri nemenda.

„Þetta er breitt aldursbil og spilast vel saman. Í leiðinni er þetta svona staður þar sem þú getur bara fengið að njóta þín og kannski orlof fyrir þá sem eru eldri að taka sér frí og koma hingað og vera.“

Fjallað var um skólann í þættinum "Um land allt" á Stöð 2 í vikunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×