Erlent

Rannsaka hvort Norður-Kórea sé á bakvið tölvuárásina

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu. Vísir/AFP
Bandarísk yfirvöld telja líklegt að Norður-Kórea sé á bakvið árás sem gerð var á tölvukerfi Sony í síðustu viku. Fréttastofan Reuters hefur það eftir ónafngreindum heimildarmanni í þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna.

Árásin átti sér stað þann 24. nóvember síðastliðinn og er málið til rannsóknar hjá bandarísku alríkislögreglunni FBI. Tölvuþrjótarnir á bakvið árásina náðu miklu magni af upplýsingum af tölvukerfi Sony og í það minnsta hluti þeirra gagna hafa verið birtar á netinu.

Heimildarmaður Reuters, sem tjáði sig með því skilyrði að nafn hans yrði ekki birt, sagði að rannsóknin beindist að fleirum en stjórnvöldum í Pyongyang og að of snemmt væri að fullyrða að norðurkóreskir hakkarar væru sökudólgarnir.

Meðal gagna sem lekið hafa á netið úr innbrotinu eru óútgefnar kvikmyndir frá Sony. Þá hafa einnig verið birt laun aðalleikaranna í myndinni The Interview, en hún hefur vakið hörð viðbrögð ráðamanna í Norður-Kóreu. Söguþráður myndarinnar snýst um tilraun til að ráða Kim Jong-un einræðisherra ríkisins bana.

Bandaríska tæknisíðan The Verge greindi frá því í kvöld að tölvuöryggisfyrirtækið AlienVault hafi með rannsóknum sínum á hugbúnaðinum sem notaður var í árásinni komist að þeirri niðurstöðu að hugbúnaðurinn hafi verið settur saman á tölvu sem stillt væri á kóresku. Þykir það renna stoðum undir kenningar um aðild Norður-Kóreu að innbrotinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×