Sport

NFL-stjarna sló í gegn sem bílasali

Josh Gordon.
Josh Gordon. vísir/getty
Besti útherji NFL-deildarinnar á síðustu leiktíð seldi bíla meðan hann tók út leikbann í deildinni. Hann stóð sig eins og hetja sem bílasali.

Josh Gordon, útherji Cleveland Browns, er nýbúinn að afplána tíu leikja bann fyrir eiturlyfjanotkun. Hann var á hraðri leið til glötunar er hann var dæmdur í bannið en er breyttur maður í dag.

Þó svo hann hafi nóg fjármagn milli handanna ákvað hann að selja bíla meðan hann var í banninu. Flestir hlógu að því og höfðu ekki trú á að hann myndi mæta í vinnu yfirhöfuð. Þeir höfðu rangt fyrir sér.

„Hann stóð sig rosalega vel. Kurteis, ungur maður sem seldi fullt af bílum," sagði samstarfsmaður Gordon á bílasölunni.

„Hann var hörkuduglegur og var til í að vinna yfirvinnu. Það var ekkert mál. Hann var mjög áhugasamur og seldi nokkra dýra bíla."

Gordon seldi meðal annars Mike Miller, leikmanni Cleveland Cavaliers, bíl. Miller skellti sér á Chevy Suburban sem hefur skilað Gordon flottum sölubónus. Gordon hefur talað um að koma aftur á söluna í sumar og hjálpa til.

Félagar hans hjá Browns hafa líka hrósað honum. Hann sé ekki lengur helst í því að reyna að tortíma sjálfum sér. Hann hefur mætt á æfingar með nýtt viðhorf sem menn kunna vel við.

Verður áhugavert að sjá hvernig Gordon gengur með Browns á næstu vikum en liðið hefur slegið frekar óvænt í gegn án hans.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×