Viðskipti innlent

Mannréttindadómstóllinn vísaði kæru Kaupþingstopps frá

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Ingólfur getur kært málið aftur seinna.
Ingólfur getur kært málið aftur seinna. Vísir
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur vísað frá máli Ingólfs Helgasonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings banka á Íslandi, á hendur íslenska ríkinu. Mál Ingólfs snérist um meint brot á rétti hans til að velja sér verjanda eftir að Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að afturkalla skipun Jóhannesar Bjarna Björnssonar hæstaréttarlögmanns, sem verjanda Ingólfs. Þetta kemur fram á vefsíðu Landslaga.

Ástæðan fyrir því að Jóhannes fékk ekki að verja Ingólf var að ekki væri útilokað að lögmaðurinn yrði kallaður fyrir réttinn sem vitni. Saksóknari í málinu, sem snýst um meinta markaðsmisnotkun og umboðssvik, hafði lagt fram endurrit af símtali á milli Jóhannesar og annars sakbornings í málinu. Átta aðrir starfsmenn bankans eru ákærðir í málinu.

Ástæða frávísunar Mannréttindadómstólsins er sú að málaferlin sem kæran sé sprottin af séu enn í gangi hér á landi. Innlend úrræði séu því ekki tæmd líkt og áskilið er í Mannréttindasáttmála Evrópu. Í tilkynningu dómstólsins er þess sérstaklega getið að Ingólfur geti lagt fram nýja kæru í kjölfar þess að málaferlin séu kláruð hér á landi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×