Fótbolti

Van Persie á krísufundi með Hiddink eftir tapið gegn Íslandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Van Persie gengur af velli eftir tapið gegn Íslandi.
Van Persie gengur af velli eftir tapið gegn Íslandi. Vísir/Valli
Robin van Persie hefur greint frá því að hann hafi fengið heimsókn frá Guus Hiddink, landsliðsþjálfara Hollands, og þeir fundað vegna slæms gengis hollenska liðsins í undankeppni EM 2016.

Holland byrjaði undankeppnina á því að tapa gegn Tékklandi á útivelli en liðið vann svo sigur á Kasakstan á heimavelli eftir að hafa lent undir í leiknum. Svo kom 2-0 tapið á Laugardalsvellinum.

„Þetta var gott, opið og heiðarlegt samtal. Þetta var samtal sem við þurftum að eiga. Mér skilst að Hiddink muni ræða við hina strákana líka,“ sagði Van Persie við Algemeen Dagblad í Hollandi.

„Allir í landsliðinu eru sannfærðir um að þetta þurfi að vera allt öðruvísi og betra hjá okkur. Þjálfarinn sýndi mér hverju hann vildi breyta - hann var beittur og stundum harður, líka við mig. En þannig á það að vera.“

„Ég hef góða tilfinningu eftir samtalið. Þetta var alvarlegt mál en ég fann fyrir miklu trausti.“

Van Persie náði sér engan veginn á strik gegn Íslandi og hefur skorað eitt mark í undankeppninni til þessa. Hann reifst við Klaas-Jan Huntelaaar, samherja sinn, í leiknum gegn Kasakstan en segir að því máli sé nú lokið.

„Við fórum vel yfir málið. Við erum báðir sigurvegarar og berum mikla virðingu fyrir hvorum öðrum.“


Tengdar fréttir

Ísland vann stórbrotinn sigur á Hollandi

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði bæði mörkin í stórglæsilegum 2-0 sigri á stjörnum prýddu liði Hollands. Ísland er með fullt hús stiga að loknum þremur umferðum.

Van Persie stendur með Hiddink

Þrátt fyrir þrjú töp í fyrstu fjórum leikjunum undir stjórn Guus Hiddink hefur Robin van Persie, landsliðsfyrirliði Hollands, trú á þjálfaranum reynda.

Pínlegt og til skammar

Hollenskir fjölmiðlar brugðust illa við tapinu á Íslandi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×