Íslenski boltinn

Arnar: Breiðablik spennandi kostur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnar lék lengi með Breiðabliki.
Arnar lék lengi með Breiðabliki. Vísir/Vilhelm
Arnar Grétarsson segir að það komi vel til greina að taka að sér þjálfunarstarf á Íslandi en allar líkur eru á að hann sé á heimleið frá Belgíu.

Arnar hefur verið starfandi sem yfirmaður knattspyrnumála undanfarin ár. Fyrst hjá AEK í Grikklandi og nú síðast hjá Club Brugge en hann hætti þar í lok ágústmánaðar.

„Ég er með mann í því að skoða mín mál en það er eins og með svo margt annað - maður þarf að vera réttur maður, á réttum stað og á réttum tíma. Eins og staðan er núna hjá mér er ekkert fast í hendi,“ sagði Arnar í samtali við Vísi í dag.

Að öllu óbreyttu mun hann flytja heim í lok mánaðarins. „Ég var búinn að vonast til að finna eitthvað fyrir 29. október en það lítur ekki út fyrir það. Það er ekki óalgengt enda tók það mig fimm mánuði að finna eitthvað annað eftir að ég hætti hjá AEK í Grikklandi.“

Hann hefur sótt sér þjálfaramenntun og þarf lítið til að fá öll leyfi til að taka þjálfa á Íslandi. „Ég var auðvitað mjög nálægt því að taka að mér starf á Íslandi áður en ég fór út en ef ég kem heim þá hefði ég áhuga á því að þjálfa. Það kemur allt til greina.“

Óvíst er hvort að Guðmundur Benediktsson verði áfram þjálfari Breiðabliks og hefur Arnar verið sterklega orðaður við stöðuna. „Maður hefur heyrt af þessu og Breiðablik er spennandi kostur. En ég skoða fyrst mín mál úti,“ sagði Arnar sem sagðist ekki hafa átt í beinum viðræðum við forráðamenn Breiðabliks.

„En mig hefur alltaf langað til að prófa að þjálfa og láta reyna á það hjá mér. Þetta er einna næst því sem maður kemst því að vera leikmaður sem er það skemmtilegasta sem maður gerir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×