Fótbolti

Mazzarri hefur áhyggjur af leikforminu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Walter Mazzarri mætir til Reykjavíkur í dag.
Walter Mazzarri mætir til Reykjavíkur í dag. vísir/arnþór
Stjarnan og Inter mætast á morgun í fjórðu umferð forkeppni Evrópudeildarinnar. Lið Inter kom til landsins í dag og síðdegis var Walter Mazzarri, þjálfari liðsins, mættur á blaðamannafund á Laugardalsvelli.

Ítalski þjálfarinn hefur áhyggjur af leikformi sinna manna, en tímabilið á Ítalíu er ekki hafið.

„Stjarnan hefur ekki tapað í sex Evrópuleikjum og ég hef áhyggjur af því Stjörnumenn séu í betra formi en leikmenn Inter. Við erum bara búnir að spila æfingaleiki að undanförnu.

„Við erum ekki í okkar besta líkamlega formi og því vil ég fara varlega inn í þennan leik. Ég tel að íslensku leikmennirnir séu mjög teknískir og í góðu formi,“ sagði Mazzarri sem tók við Inter fyrir síðustu leiktíð, en áður þjálfaði hann Napoli með góðum árangri.

Mazzarri kveðst hafa séð nokkra leiki með Stjörnunni og fylgst vel með liðinu.

„Ég tel að þetta sé mjög gott lið. Ég hef séð Evrópuleiki Stjörnunnar og þeir hafa gert mjög vel.“

Mazzarri segir að pressan sé á liði Inter: „Þetta er stærsti leikur sem Stjarnan hefur spilað. Við leggjum mikla áherslu á að komast áfram og við ætlum að vinna báða leikina.“

Leikurinn á morgun hefst klukkan 21:00, en hann verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport, auk þess sem honum verður lýst í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×