Erlent

Flugritar MH17 afhentir malasískum sérfræðingum

Jakob Bjarnar skrifar
Öryggisráðið samþykkti samhljóða að leggja fram kröfu þess efnis að alþjóðlegir aðilar fengju aðgang að slysstað.
Öryggisráðið samþykkti samhljóða að leggja fram kröfu þess efnis að alþjóðlegir aðilar fengju aðgang að slysstað. ap
Uppreisnarmenn í austur Úkraínu hafa nú afhent flugrita vélarinnar MH17 til malasískra sérfræðinga.

Það gerði einn af foringjum upreisnarmanna á fundi í Donetsk með malasískum yfirvöldum. Þetta var klukkustund eftir að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti samhljóða að leggja fram kröfu þess efnis að alþjóðlegir aðilar fengju aðgang að slysstað, en flugvélin hrapaði til jarðar á fimmtudag og fórust allir sem um borð voru eða 298 manns.

Fulltrúar vestrænna ríkja, þeirra á meðal John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafa haldið því fram að ýmislegt bendi til þess að rússneskt flugskeyti, sem uppreisnaröflin höfðu í fórum sínum, hafi grandað vélinni en Rússar hafa á móti haldið því fram að úkraínsk yfirvöld beri ábyrgð á voðaverkinu.

Talið er víst að í dag verði lögð fram krafa um frekari aðgerðir gegn Rússum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, sem þá snýr að ásökunum þess efnis að þeir styðji uppreisnaröfl í Úkraínu. Fram hefur komið sú krafa, bæði á vettvangi Evrópusambandsins, sem og í Bandaríkjunum, að farið verði út í víðtækar viðskiptaþvinganir á hendur Rússum, vegna ástandsins á Krímskaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×