Erlent

Aðskilnaðarsinnar í Úkraínu neita sök

Bjarki Ármannsson skrifar
Óhuggulegt er um að lítast við brak vélarinnar.
Óhuggulegt er um að lítast við brak vélarinnar. Nordicphotos/AFP
Aðskilnaðarsinnar í Úkraínu neita því að hafa skotið niður farþegaflugvélina MH17 sem hrapaði í austurhluta landsins á fjórða tímanum í dag. Miklir bardagar hafa geisað á landamærum Rússlands og Úkraínu milli úkraínskra hersveita og aðskilnaðarhreyfinga að undanförnu.

Yfirvöld í Úkraínu sögðu fyrr í dag að vélin hafi verið skotin niður með flugskeytum af gerðinni Buk, sem lengi voru notuð af sovéska hernum. The Guardian greinir frá því að aðskilnaðarsinnar kenni aftur á móti úkraínskum hersveitum um árásina og segist ekki búa yfir flugskeytum sem gætu skotið niður flugvél í jafn mikilli hæð og MH17 var í.

Ef flugvélin var skotin niður, er þetta í þriðja skiptið á örfáum dögum sem það gerist við landamærin en hinar tvær voru smáar herþotur úkraínska hersins.

„Við útilokum ekki að þessi vél hafi líka verið skotin niður og við leggjum mikla áherslu á að úkraínski herinn hefur ekki ráðist gegn neinum skotmörkum í háloftunum,“ segir forseti Úkraínu, Pedró Porósjenkó.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti vottar forsætisráðherra Malasíu samúð sína í tilkynningu sem gefin var út fyrir stuttu. Hann talar þar um hrap vélarinnar sem „slys.“


Tengdar fréttir

Farþegaþota með 295 farþegum innanborðs hrapar í Úkraínu

Boeing-vél malasíska flugfélagsins Malaysian Airlines á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur var skotin niður á landamærum Úkraínu og Rússlands, samkvæmt heimildum Interfax. 295 farþegar voru um borð og eru allir taldir af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×