Erlent

Samningur ESB við Úkraínu, Moldóvu og Georgíu undirritaður

Randver Kári Randversson skrifar
Petro Porosjenko, forseti Úkraínu, við undirritun samningsins í Brussel í dag.
Petro Porosjenko, forseti Úkraínu, við undirritun samningsins í Brussel í dag. Vísr/AFP
Í dag var undirritaður samningur þar sem lagður er grunnurinn að efnahagslegu og pólitísku samstarfi Evrópusambandsins við Úkraínu, Moldóvu og Georgíu. BBC greinir frá þessu.

Petro Porosjenko, forseti Úkraínu, fagnaði undirritun samningsins í Brussel í dag, og sagði að um söguleg tímamót væri að ræða og sagði daginn þann mikilvægasta í sögu Úkraínu frá því landið varð sjálfstætt árið 1991. Hann sagði samninginn fela í sér upphaf undirbúnings þess að Úkraína gangi í hóp Evrópusambandsríkja.

Rússneskir ráðamenn hafa talað um að samningurinn muni hafa alvarlegar afleiðingar og sagði Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, að Úkraína myndi klofna ef þjóðin yrði látin velja milli samstarfs við Evrópusambandið eða Rússland. Hann sagði samninginn fela í sér sársaukufullt inngrip í málefni Úkraínu og aðeins fela í sér gervivalkost fyrir Úkraínumenn.

Umræddur samningur var upphaflega kveikjan að því ólguástandi sem ríkt hefur í landinu undanfarna mánuði, en fjöldamótmæli hófust í Úkraínu eftir að Viktor Janúkóvítsj, þáverandi forseti landsins, hætti við að undirrita samninginn í nóvember á síðasta ári.

Vopnahlé milli stjórnarhersins og aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins rennur út nú í kvöld og sagði Porosjenko það munu ráðast þegar hann kæmi aftur til Kænugarðs hvort vopnahléið yrði framlengt. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagðist fylgjandi því að framlenging yrði á vopnahléinu en þó ekki ef aðskilnaðarsinnum er settir afarkostir um að leggja niður vopn.

Pútín sagði að vopnahlé til langs tíma væri nauðsynlegt til að leiða friðarviðræður til lykta og stöðva blóðbaðið í suðausturhluta Úkraínu.   




Fleiri fréttir

Sjá meira


×