Fótbolti

Mandzukic á förum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Mario Mandzukic er á förum frá Bayern Munchen.
Mario Mandzukic er á förum frá Bayern Munchen. Vísir/Getty
Mario Mandzukic, framherji Bayern Munchen, er á förum frá liðinu en þetta staðfesti hann í samtali við króatíska miðla. Mandzukic hefur verið orðaður við Chelsea, Manchester United og Arsenal.

Mandzukic sem gekk til liðs við Bayern frá Wolfsburg árið 2012 hefur unnið alla stærstu titlana sem í boði eru með Bayern á tveimur árum. Pólski framherjinn Robert Lewandowski gengur til liðs við Bayern í sumar frá Dortmund sem ætti að auðvelda brottför Mandzukic.

Mandzukic var ekki í leikmannahóp Bayern í bikarúrslitaleiknum gegn Dortmund á dögunum og hefur Króatinn staðfest að hann sé á förum vegna Pep Guardiola, knattspyrnustjóra Bayern. Mandzukic telur að leikstíll Bayern undir Guardiola henti ekki styrkleikum sínum.

„Ég sagði við forseta Bayern fyrir bikarúrslitaleikinn að ég vildi fara í sumar. Ég hef notið þess til botns að spila fyrir þennan frábæra klúbb og ég bjóst aldrei við að fara héðan en leikstíll liðsins einfaldlega hentar mér ekki.“

„Ég mun alltaf muna eftir tíma mínum hjá Bayern og óska ég liðinu góðs gengis undir Guardiola,“ sagði Mandzukic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×