Íslenski boltinn

Atli Viðar hélt FH á toppnum | Úrslit kvöldsins

Átján mörk og sex rauð spjöld litu dagsins ljós í fimmtu umferð Pepsi-deildar karla sem fór öll fram í kvöld.

FH og Stjarnan eru efst og jöfn með ellefu stig á toppi deildarinnar en Hafnfirðingar sluppu fyrir horn gegn sprækum Keflvíkingum suður með sjó. Atli Viðar Björnsson kom aftur inn á sem varamaður og skoraði mikilvægt mark - í þetta sinn jafnaði hann metin með marki á 83. mínútu.

Stjarnan hefði getað farið á toppinn með sigri á Val og lengi vel stefndi í að mark Arnars Más Björgvinssonar myndi duga til þess. En Kolbeinn Kárason, einnig varamaður, kom í veg fyrir það er hann jafnaði metin fyrir Val með marki í uppbótartíma.

Fjölnir er einnig taplaus í deildinni og er það vel af sér vikið hjá nýliðunum. Grafarvogsbúar gerðu 1-1 jafntefli gegn KR í kvöld og eru í fjórða sætinu með níu stig, einu minna en Keflavík.

Þór vann sinn fyrsta sigur er liðið slátraði Fylkismönnum norðan heiða, 5-2. Sex mörk voru skoruð í fyrri hálfleik og eitt rautt spjald var gefið. Það vakti svo athygli að Hermann Hreiðarsson, sem var varamaður í kvöld, sem og starfsmaður á bekk Fylkis fengu rautt í hálfleik.

Breiðablik gerði sitt þriðja jafntefli í kvöld og er enn að bíða eftir fyrsta sigrinum. Liðið lenti reyndar undir gegn Fram en fékk þó stig að lokum.

Eyjamenn eru svo neðstir með aðeins eitt stig en liðið tapaði fyrir Víkingi í Eyjum, 2-1. Beint rautt spjald sem Ian Jeffs fékk skömmu eftir að hafa komið inn á sem varamaður hafði mikið að segja í þeim leik.

Hér fyrir neðan má sjá umfjöllun um alla leiki kvöldsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×