Enski boltinn

Þjálfari FH: Erum ekki lagstar í gröfina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik FH gegn ÍBV síðastliðið sumar.
Úr leik FH gegn ÍBV síðastliðið sumar. Vísir/Anton
Þórður Jensson, þjálfari FH, segir að leiðin geti aðeins legið upp á við eftir 13-0 tap liðsins gegn Breiðabliki í Pepsi-deild kvenna í gær.

„Þetta var fullkominn leikur hjá þeim. Allt sem klikkaði hjá þeim í síðasta leik [gegn Fylki] gekk upp gegn okkur og gott betur,“ sagði Þórður en Blikar höfðu gert markalaust jafntefli gegn nýliðunum úr Árbænum.

„Við lögðum leikinn upp með því að spila þéttan varnarleik en það fór fljótt. Það var erfitt að rífa sig upp þegar þetta gekk svona fyrir sig,“ bætti Þórður við en FH var 8-0 undir í hálfleik.

„Ég þurfti að gera tvær breytingar þá í vörninni vegna meiðsla. En annars gekk hálfleiksræðan mín út að reyna að halda sjó og gleyma fyrri hálfleiknum. Það gekk eins og það gekk.“

Þórður segir að FH-ingar hafi mætt gríðarsterku Blikaliði sem hafi verið að svara fyrir sig eftir slæma frammistöðu gegn Fylki. „Þær eru með gríðarlega gott sóknarlið en fyrstu tveir leikir Blikanna í sumar hafa ekki endurspeglað það. Nú sprungu þær út og við urðum fyrir barðinu á því.“

Hann segir að það hafi verið erfitt að takast á við svona stórt tap. „Það er enginn undirbúinn fyrir svona lagað. Við getum ekkert gert nema lært af þessu og við ætlum að halda ótrauðar áfram. Við erum ekki lagstar í gröfina. Botninum hefur verið náð og eina leiðin nú er upp á við.“

FH hafði unnið tvo fyrstu leiki sína á tímabilinu - gegn Aftureldingu og ÍA. „Með fullri virðingu fyrir þeim liðum þá er heilmikill munur á þeim og liði Breiðabliks,“ segir Þórður en hann hefur ekki áhyggjur af því að munurinn á liðunum í deildinni bjóði upp á fleiri slíka stórsigra í sumar.

„Ég held ekki. Ég vona að þetta sé áminning til allra liða. Það má líka benda á að í fyrra sáust svona tölur í 1. deild karla en svona tölur hafa ekki sést lengi í kvennaboltanum,“ sagði Þórður og vísaði til 16-0 sigurs Víkinga á Völsungi síðastliðið haust.

„Þetta verður ekki í boði í fleiri leikjum okkar í sumar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×