Fótbolti

Játaði að hafa ekki lagt sig fram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Thomas Cichon í búningi Osnabrück.
Thomas Cichon í búningi Osnabrück. Vísir/Getty
Þýskur varnarmaður, Thomas Cichon, hefur viðurkennt að hann hafi tekið þátt í hagræðingu úrslita knattspyrnuleikja með því að leggja sig viljandi ekki allan fram.

Þetta kom fram í réttarhöldum sem nú fara fram í Bochum í Þýskalandi. Cichon, fyrrum leikmaður U-21 landsliðs Þýskalands, segir að honum hafi verið skipað gera sitt svo að lið hans, Osnabrück, myndi tapa fyrir Augsburg í leik liðanna í 2. deildinni árið 2009.

Osnabrück var þá þegar fallið úr deildinni og tapaði leiknum, 3-0. „Ég var tilbúinn að gera það sem mér var sagt. Við urðum að tapa leiknum,“ sagði hann.

Cichon er hættur að spila knattspyrnu en hefur engu að síður verið dæmdur í bann af þýska knattspyrnusambandinu til 2015. Hann gæti fengið ellefu mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm þar að auki.

Cichon skuldaði veðmangara háar fjárhæðir og lét þess vegna til leiðast. Eftir leikinn var skuld hans minnkuð um 20 þúsund evrur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×