Innlent

Bílahjal Jóns Gnarr kostaði hann Pollapönk

Sveinn Arnarsson skrifar
Jón Gnarr vildi ólmur horfa á Pollapönk syngja slagarann sinn, Enga fordóma, í forkeppni Eurovision í beinni útsendingu í gær. Vonaðist hann eftir að hlé yrði gert á fundi borgarstjórnar vegna keppninnar. Þegar keppnin hófst í Ríkissjónvarpinu stóð umræða um hverfaskipulag sem hæst í borgarstjórn. 

Jón Gnarr var afar ósáttur við það að fundi væri ekki lokið áður en Pollapönk steig á svið í kóngsins Köben. Var hann ósáttur við starfsbróður sinn í borgarstjórn, Júlíus Vífil Ingvarsson oddvita sjálfstæðismanna, um að vilja ekki slíta fundi.

„Okkur sem hópi hefur verið sýnd lítilsvirðing, mér finnst þetta vináttuleysi gagnvart Óttarri Proppé," sagði Jón Gnarr, borgarstjóri í ræðunnu. 

Júlíusi Vífli fannst skrýtið að hagsmunir borgarbúa væru hafðir að vettugi og settir í annað sætið á eftir söngvakeppninni.  

„Þetta er ekki boðlegt," sagði Júlíus Vífill og sakaði hann borgarstjóra sjálfan um að lengja borgarstjórnarfund. Borgarstjóri hefði sjálfur haldið langa tölu um bíla sem hefði að sönnu mátt vera styttri. Hann gæti horft á keppnina á Plúsnum. Hagsmunir borgarbúa hlytu að vera meiri en svo að borgarfulltrúar gerðu hlé á fundi til að horfa á sjónvarpið.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis og samflokksmaður Júlíusar Vífils Ingvarssonar, tók hins vegar upp málefni söngvakeppninnar sérstaklega í stóli forseta í gærkvöld og óskaði Óttarri Proppé, 6. varaforseta hins háa Alþingis, til hamingju með árangurinn líkt og sjá má að neðan.

Það er greinilega mismikill áhugi á söngvakeppninni innan raða Sjálfstæðismanna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×