Körfubolti

Aldrigde fór á kostum í sigri Portland

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Houston Rockets áttu fá svör við LaMarcus Aldrigde í nótt.
Leikmenn Houston Rockets áttu fá svör við LaMarcus Aldrigde í nótt. Vísir/Getty
Fyrsta umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar hélt áfram í nótt. Portland sigraði Trail Blazers Houston Rockets 122-120, eftir framlengdan leik. LaMarcus Aldrigde fór á kostum í liði Portland og skoraði 46 stig og tók 18 fráköst. Leikstjórnandinn Damian Lillard kom næstur með 31 stig í sínum fyrsta leik í úrslitakeppni. James Harden og Dwight Howard skoruðu mest fyrir Houston, eða 27 stig hvor. Howard tók auk þess 15 fráköst.

San Antonio Spurs vann fimm stiga heimasigur, 90-85, á nágrönnum sínum í Dallas Mavericks þar sem gamla brýnið Tim Duncan átti stórleik. Duncan skoraði 27 stig og tók sjö fráköst, en næstur kom Frakkinn Tony Parker með 21 stig. Devin Harris var stigahæstur Dallas-manna með 19 stig, en Dirk Nowitzki, stigahæsti maður liðsins í vetur, skoraði aðeins 11 stig í leiknum.

Washington Wizards vann Chicago Bulls á útivelli, 102-93, og tók þar með forystuna í einvígi liðanna. Brasilíumaðurinn Nene skoraði 24 stig fyrir Washington og tók átta fráköst. Trevor Ariza kom næstur með 16 stig, en sex leikmenn Washington-liðsins skoruðu tíu stig eða fleiri. Kirk Heinrich og D.J. Augustin skoruðu 16 stig hvor fyrir Chicago.

Þá höfðu meistarar Miami Heat betur gegn Charlotte Bobcats á heimavelli, 99-88, en þetta var 17. sigur Miami á Charlotte í röð. LeBron James fór fyrir meisturunum og skoraði 27 stig og tók níu fráköst. Dwayne Wade kom næstur með 23 stig. Kemba Walker var atkvæðamestur Charlotte-manna, en hann skoraði 20 stig, tók sex fráköst og gaf fimm stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×