Innlent

Guðni útilokar ekki framboð í Reykjavík

Heimir Már Pétursson skrifar
Þrýst er á Guðna Ágústsson fyrrverandi formann Framsóknarflokksins að setjast í oddvitasæti flokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor.

Óskar Bergsson tilkynnti fyrir rúmri viku að hann væri hættur við að leiða lista Framsóknarmanna í Reykjavík en flokkurinnn hefur mælast afar illa í könnunum undanfarna mánuði og samkvæmt þeim er hann ekki að ná inn borgarfulltrúa.

Kjördæmissamband flokksins leitar að nýjum oddvita sem getur lyft flokknum í lágdeyðunni. Ekki hafa verið nefnd mörg nöfn í því sambandi en Guðni Ágústsson fyrrverandi formaður flokksins og ráðherra hefur verið nefndur sem mögulegur oddviti flokksins í Reykjavík.

Guðni er vinsæll í flokknum og býr í Reykjavík. Í samtali við fréttastofu kannast hann við það að til hans hafi margir leitað vegna þessa máls og hann hljóti því að hugsa málin. Hins vegar sé engin niðurstaða komin og hann vilji því ekkert segja um það á þessu stigi hvort hann stígi aftur inn á völl stjórnmálanna eftir að hafa setið á friðarstóli frá því hann hætti á Alþingi árið 2009.

Þá kemur auðvitað til greina að hækka Guðrúnu Bryndísi Karlsdóttur sem skipar nú annað sætið upp í oddvitasætið.

Magnús Scheving var nefndur hjá sumum heimildum fréttastofu, en maður sem stendur honum nærri taldi hins vegar afar ólíklegt að Magnús væri á leið í stjórnmál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×