Fótbolti

Guardiola við blaðamann: Horfðu á mig þegar ég tala

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guardiola á hliðarlínunni í gær.
Guardiola á hliðarlínunni í gær. Vísir/Getty
Pep Guardiola, stjóri Bayern München, reiddist á blaðamannafundi eftir leik sinna manna gegn Manchester United á Old Trafford í gær.

Liðin skildu jöfn, 1-1, í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum en Guardiola var ekki ánægður með ákvörðun dómarans að reka Bastian Schweinsteiger, sem skoraði mark Bayern í leiknum, af velli.

„Ég ræddi við dómarann og hann veit mína skoðun. Mér finnst hann mjög góður dómari og stóð sig vel. En þetta var ósanngjarnt,“ sagði Guardiola.

„En þetta er allt í lagi. Maður verður að komast yfir allar hindranir til að vinna Meistaradeildina,“ bætti hann við.

Lið United var afar varnarsinnað í leiknum og sagði Guardiola að það væri erfitt að spila gegn enskum liðum því þau væru yfirleitt með „með átta eða níu menn í teignum“.

Breskur blaðamaður spurði hann nánar út í ummælin og hvort að leikstíll United hafi verið neikvæður.

„Þetta sagði ég ekki. Ég ber virðingu fyrir kollega mínum [David Moyes],“ sagði Guardiola.

„Horfðu á mig þegar ég er að tala við þig. Ég er að horfa á þig en þú ert ekki að horfa á mig - þú ert að horfa eitthvað annað,“ bætti Spánverjinn svo við.

Hér má sjá upptöku af atvikinu á heimasíðu Guardian.


Tengdar fréttir

Moyes: Svekkjandi að fá á sig mark

Skotinn var ánægður með spilamennsku sinna manna en fannst sárt að fá á sig eitt mark líkt og fyrirliðanum Nemanja Vidic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×