Körfubolti

Hlynur "Svartskeggur" vekur athygli í Svíþjóð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ekki amalegt skegg hjá Hlyni.
Ekki amalegt skegg hjá Hlyni. Mynd/Skjáskot af vefsíðu st.nu.
Hlynur Bæringsson og félagar í sænska úrvalsdeildarliðinu Sundsvall Dragons féllu úr leik í úrslitakeppninni þar í landi í kvöld þegar þeir töpuðu fyrir Uppsala Basket, 90-71.

Tímabilinu er því lokið hjá Hlyni, JakobiErni, ÆgiÞór og hinum Drekunum en liðið gekk í gegnum margt og mikið á tímabilinu og endaði að lokum í fjórða sæti deildarinnar.

Fyrir fjórða leikinn í 8 liða úrslitunum í kvöld sem tapaðist á útivelli í Uppsala var mikið fjallað um hinn harðduglega Hlyn Bæringsson sem var annað árið í röð kjörinn besti varnarmaður deildarinnar.

Það var þó skeggið myndarlega sem vefsíðan st.nu vildi hvað helst ræða en Hlynur skartar afar myndarlegu skeggi og er á síðunni kallaður „Svartskeggur“ eins og sjóræninginn alræmdi forðum daga.

„Ég ákvað í nóvember að raka það ekki aftur fyrr en að tímabilinu loknu. Ég vildi prófa þetta en svo fer það af. Það verður of heitt að vera með þetta í sumar,“ segir Hlynur sem segist fá góð viðbrögð andstæðinganna í deildinni sem og vina sinna.

Konan er þó ekki jafnánægð. „Henni finnst þetta of mikið. Henni líkar alveg skegg en finnst ég líta út eins og álfur. Krakkarnir elska þetta. Skeggið er mjúkt og notalegt fyrir þau,“ segir Hlynur í viðtali við st.nu.

Alla greinina má lesa á sænsku hér.


Tengdar fréttir

Uppsala sendi Drekana í sumarfrí

Sundsvall Dragons er úr leik í úrslitakeppni sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta eftir þriðja tapið gegn Uppsala Basket á útivelli í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×