Viðskipti innlent

Töldu viðskiptalegar forsendur að baki Aurum láninu

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Aðalmeðferð í Aurum málinu mun standa yfir fram í miðjan maí.
Aðalmeðferð í Aurum málinu mun standa yfir fram í miðjan maí. Vísir/GVA
„Mér hefur verið sagt að hann hafi staðfest þetta,“ sagði Guðný Sigurðardóttir fyrrverandi lánastjóri hjá Glitni banka við aðalmeðferð Aurum Holding-málsins í dag. Vísaði hún þar til þess að upphafsstafir Rósants Más Torfasonar, fyrrverandi fjármálastjóra bankans, eru skráðir á fundargerð áhættunefndar bankans þar sem lánið er formlega samþykkt. Rósant hafnaði því í sínum vitnisburði í dag að hafa veitt þetta samþykki, hann hefði ekki getað það þar sem hann var staddur á norðanverðum Vestfjörðum - utan síma- og netssambands.

Guðný, sem ritaði fundargerðina, sagðist ekki vita hver hefði sagt henni að Rósant væri búinn að veita þetta samþykki, en ásamt Rósant eru tveir hinna ákærðu, Lárus Welding og Magnús Arnar Angrímsson skráðir fyrir samþykkinu.

Rósant sagði ennfremur í málinu í dag að þrátt fyrir að hann hafi verið mótfallinn lánveitingunni hefði það ekki verið á þeim grundvelli að hún væri andstæð reglum bankans eða landslögum. Hann taldi hins vegar að verið væri að taka hlutabréfaáhættu og að réttast væri að stjórn bankans tæki ákvörðun um lánveitinguna - það væri rétta leiðin fyrir þetta mál.

Bæði Rósant og Guðnýju hefur, ásamt ákærðu í málinu utan Bjarna Jóhannessonar, verið stefnt í einkamáli af slitastjórn Glitnis, þar sem slitastjórnin krefst sex milljarða króna skaðabóta vegna málsins.

Auk Guðnýjar og Rósant gaf skýrslu eftir hádegi í dag Daði Hannesson, fyrrverandi sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf bankans. Hann gerði verðmat á Aurum Holding innan Glitnis þar sem hann komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að ef allar áætlanir í rekstri Aurum Holding stæðust væri félagið 190 til 200 milljóna punda virði, en áætlaði einnig að ef sú upphæð væri færð niður væri félagið 110 milljón punda virði. Sérstaklega er tekist á um hvert rétt verðmat var á félaginu en nokkrar útfærslur á virði þess hafa litið dagsins ljós við aðalmeðferðina.

Þá gaf skýrslu Gunnar Snævar Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Baugs. Hann kom að samningaviðræðum við félagið Damas um kaup þeirra á Aurum. Hann lýsti því ferli nokkuð nákvæmlega, forsvarsmenn Damas hafi verið spenntir fyrir Aurum og séð hag í því að eignast hlut í félaginu. Hann lýsti einnig aðdraganda þess að ekkert varð úr kaupum Damas á Aurum, en Gunnar sagðist aldrei hafa fengið formlega skýringu á því hvers vegna ekki varð af kaupunum.

Þórólfur Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings á Íslandi var einn af þeim síðustu til að gefa skýrslu í dag. Hann var einn af þeim fyrstu sem kom að viðræðum Damas og Aurum og sótti fundi milli félaganna í upphafi. Kaupþing vann verðmat á Aurum, í umboði bæði Baugs og Aurum að sögn Þórólfs, en þar var félagið metið á 121 milljón punda. Aðspurður hvernig 100 milljón punda viðmiðið í samskiptum félaganna á virði Aurum hefði komið til sagði Þórólfur það hefði verið kynnt félaginu mjög snemma í ferlinu að Baugur teldi félagið hið minnsta þess virði. „Það var gert mjög skýrt grein fyrir því að til að af þessu yrði yrði það að vera talan. Það var krafa seljandans til að þessar viðræður gætu farið eitthvað áfram að gagnaðilinn viðurkenndi að þetta væri að lágmarki virði félagsins,“ sagði Þórólfur.

Hann sagði að að full alvara hefði verið á bak við viðræðurnar, en sérstakur saksóknari hefur meðal annars haldið því fram að engar viðskiptalegar forsendur stæðu að baki lánveitingunni.


Tengdar fréttir

Aðalmeðferð í Aurum málinu í dag

Stefnt á að Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, og Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri beri vitni í dag. Jón Ásgeir Jóhannesson beri vitni á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×