Körfubolti

Villiköttunum tókst ekki að skáka hinum fimm fræknu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Connecticut Huskies fagna sigrinum í nótt.
Connecticut Huskies fagna sigrinum í nótt. Vísir/Getty
Einn stærsti íþróttaviðburður Bandaríkjanna hvert ár fór fram í nótt þegar Connecticut-háskólinn og Kentucky-háskólinn áttust við í úrslitaleiknum um NCAA-meistaratitil karla í körfubolta.

Leikurinn fór fram á hinum magnaða AT&T-velli í Arlington í Texas sem er heimavöllur NFL-liðsins Dallas Cowboys. Rétt tæplega 80.000 áhorfendur fylgdust með leiknum sem er met í háskólakörfunni en til gamans má geta að risaskjárinn á vellinum er á stærð við tvo körfuboltavelli og rúmlega það.

Bæði lið voru komin nokkuð óvænt í úrslitaleikinn en varla nokkur maður þorði að spá þeim svo langt. Connecticut vann leikinn, 60-54, og varð um leið fyrsti skólinn í sögunni til að vinna mótið eftir að vera styrkleikaraðað númer sjö í sínum landshluta.

Lokamótið í háskólakörfunni ber heitið Mars-geðveikin (e. March Madness) og fer þannig fram að 64 skólar taka þátt í úrslitakeppni. Allir sem komast í lokamótið eru því sex sigrum frá því að vinna en titlarnir í Bandaríkjunum gerast ekki mikið stærri, þó svo um sé að ræða háskólaíþrótt.

Byrjunarlið Kentucky í ár og í gegnum allt lokamótið var einungis skipað nýliðum en þetta er í fyrsta skiptið síðan 1992 sem skóli sem byrjar með fimm nýliða kemst alla leið í úrslitaleikinn.

Síðast var það hið sögufræga Michigan-lið með Chris Webber og JalenRose innanborðs sem komst í úrslit með fimm nýliða í byrjunarliðinu árið 1992 en eins og Kentucky tapaði það úrslitaleiknum. Það lið var kallað „Fab Five“ eða hinir fimm fræknu.

Hvuttarnir frá Connecticut höfðu yfirhöndina meira og minna í gær þó Villikettirnir frá Kentucky hafi búið til mikla spennu í seinni hálfleik. Undir lokin má segja að lítil reynsla nýliðanna hafi orðið þeim að falli.

Shabazz Napier var stigahæstur Connecticut-liðsins með 22 stig en JamesYoung skoraði 20 stig fyrir Kentucky.

Þesi nýja útgáfa af „Fab Five“ fær ekki tækifæri til að skáka gömlu útgáfunni á næsta ári og vinna mótið saman því enn sem komið er þurfa háskólaíþróttamenn aðeins að ljúka einu ári í skóla áður en þeir mega skrá sig í nýliðavalið.

James Young og samherji hans, JuliusRandle, ætla báðir rakleiðis í NBA-deildina og eru taldir fara meðal fyrstu tíu í nýliðavalinu.

Kevin Ollie er þjálfari Huskies.Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×