Fótbolti

Napoli féll úr leik í Portúgal | Úrslit kvöldsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Porto fagna í kvöld.
Leikmenn Porto fagna í kvöld. Vísir/Getty
Napoli er úr leik í Evrópudeild UEFA eftir að hafa gert jafntefli við Porto í Portúgal í kvöld, 2-2. Niðurstaðan var 3-2 samanlagður sigur Portúgalanna.

Goran Pandev kom reyndar Napoli yfir í kvöld með marki á 21. mínútu eftir vel útfærða sókn Ítalanna. Þar með jafnaði hann metin í rimmunni.

En möguleikar Ítalanna urðu að engu um miðjan síðari hálfleikinn er Porto skoraði tvívegis með skömmu millibili. Fyrst Nabil Ghilas og svo Ricardo Quaresma með hörkuskoti eftir frábæran sprett.

Duvan Zapata klóraði í bakkann fyrir Napoli með marki af stuttu færi í uppbótartíma en það reyndist einungis sárabót.

Juventus, sem féll úr leik í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu, komst áfram í 8-liða úrslit keppninnar fyrr í kvöld og er eina ítalska liðið sem er eftir í Evrópukeppnunum.

Basel komst áfram eftir magnaðan sigur á Red Bull Salzburg í Austurríki í kvöld, 2-1. Fyrri leiknum lauk með markalausu jafntefli í Sviss.

Basel missti mann af velli með rautt spjald strax á níundu mínútu og stuttu síðar kom markahrókurinn Jonathan Soriano Red Bull yfir. Þá þurfti að stöðva leikinn í um tíu mínútur eftir að stuðningsmaður Basel kastaði blysi inn á völlinn.

Það hefur greinilega kveikt í leikmönnum Basel því liðið tryggði sér sigur með mörkum Marco Streller og Gaston Sauro í upphafi síðari hálfleiks.

Sevilla komst svo áfram eftir sigur á Real Betis í vítaspyrnukeppni í kvöld. Leik liðanna í kvöld lyktaði með 2-0 sigri Sevilla en Real Betis vann fyrri leikinn með sama mun. Því þurfti að framlengja en ekkert mark var skorað í henni. Sevilla hafði svo betur í vítaspyrnukeppninni, 4-3.

AZ Alkmaar komst fyrr í kvöld áfram í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar, rétt eins og Benfica, Juventus, LyonogValencia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×