Körfubolti

Hörður Axel og félagar gáfu eftir í fjórða leikhluta

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hörður Axel í landsleik.
Hörður Axel í landsleik. Vísir/Daníel
Enn tapa Hörður Axel Vilhjálmsson og félagar í botnliði Valladolid í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta en liðið lá á heimavelli í kvöld fyrir Valencia, 91-77.

Það var vitað að verkefnið yrði mjög erfitt í kvöld fyrir Valladolid enda Valencia í öðru sæti deildarinnar með 20 sigra og aðeins þrjú töp.

Staðan var jöfn í hálfleik, 38-38, og heimamenn voru sex stigum yfir fyrir lokafjórðunginn, 65-59. Gestirnir voru þó of sterkir á endasprettinum og unnu síðasta leikhlutann með 20 stiga mun, 32-12, og leikinn, 91-77.

Hörður Axel spilaði rétt rúmar sjö mínútur í leiknum. Hann reyndi eitt tveggja stiga skot og eitt fyrir utan þriggja stiga línuna en hitti úr hvorugu. Hann lauk leik stigalaus en tók eitt frákast og gaf eina stoðsendingu.

Valladolid er á botni deildarinnar með aðeins tvo sigra og 22 töp en liðið er fimm sigrum frá öruggu sæti og stefnir hraðbyri niður um deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×