Fótbolti

Iniesta glímdi við vægt þunglyndi fyrir HM 2010

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Iniesta skorar hér sigurmarkið í úrslitaleik HM 2010.
Iniesta skorar hér sigurmarkið í úrslitaleik HM 2010. Vísir/Getty
Andrés Iniesta segir að það hafi verið ólýsanleg tilfinning að skora sigurmarkið í úrslitaleik HM í Suður-Afríku.

Iniesta viðurkenndi þó í viðtali sem birtist í Foot-tímaritinu að hann hafi glímt við þunglyndi í aðdraganda úrslitakeppni HM 2010.

„Ég var með vægt þunglyndi en ég held að allir gangi í gegnum slíkt einhvern tímann á sinni ævi,“ sagði Iniesta í viðtalinu en sigurmark gegn Hollandi í úrslitaleiknum tryggði Spánverjum fyrsta heimsmeistaratitil landsins frá upphafi.

„Ég var að glíma við ýmis vandamál í mínu einkalífi og smávægileg meiðsli þar að auki. Mér fannst ég vera viðkvæmur.“

„Það var svo eins og að öll jákvæðu lýsingarorðin í orðabókinni hafi sameinast þegar ég skoraði markið. Ég þurfti að bíða eftir að boltinn skoppaði fyrir mig áður en ég skaut. Ég lét þyngdaraflið um sitt og ég skoraði. Newton að verki!“

Iniesta sagði einnig frá æsku sinni í viðtalinu og að Michael Laudrup hafi verið hans uppáhaldsleikmaður. Þegar hann yfirgaf svo heimabæ sinn til að fara í hinn margrómaða La Masia-akademíu Barcelona hafi hann í fyrstu átt erfitt uppdráttar.

„Það var erfiðasta reynsla lífs míns en það tók mig marga mánuði að jafna mig. Ég grét hvert einasta kvöld í herberginu mínu.“

„Ég hefði þó séð eftir því í dag hefði ég ekki komið aftur til Barcelona.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×