Erlent

Telja líklegt að flugmaðurinn hafi brotlent vélinni viljandi

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
239 voru um borð og hefur ekkert spurst til vélarinnar síðan á laugardag.
239 voru um borð og hefur ekkert spurst til vélarinnar síðan á laugardag. vísir/afp
Ástralskur flugráðgjafi sakar yfirvöld í Malasíu um að liggja á upplýsingum um hvarf farþegaflugvélar Malaysian Airlines sem hvarf af ratsjá á laugardag. 239 voru um borð og hefur ekkert spurst til vélarinnar.

Ráðgjafinn, Neil Hansford, segir í samtali við fréttastofu Sky að yfirvöld séu tvísaga í málinu. Hann nefnir þrjár mögulegar skýringar á hvarfinu. Sú fyrsta er sú að farþegavélin hafi verið skotin niður af hernum. Önnur er sú að sprengja hafi verið um borð.

Hansford segist hafa efasemdir um að mennirnir tveir sem fóru um borð með stolin vegabréf hafi verið á leið til Þýskalands eins og greint hefur verið frá. „Af hverju voru þeir í malasískri flugvél á leið til Kína ef þeir ætluðu sér að fara til Þýskalands?,“ spyr Hansford.

Þriðja og líklegasta skýringin að hans mati er sú að flugmaðurinn hafi framið sjálfsvíg. Hann hafi beðið eftir að hinn flugmaðurinn yfirgæfi flugstjórnarklefann og þá læst að sér og brotlent vélinni viljandi.

John Hansman, prófessor í flugvélaverkfræði í Massachusetts, tekur í sama streng og segir möguleika á því að flugmaðurinn hafi fyrirfarið sér með því að brotlenda.


Tengdar fréttir

Farþegaþota hvarf af radar

Vélin er á vegum Malaysian Airlines en í yfirlýsingu frá flugfélaginu segir að vélin hafi horfið af radar á sjöunda tímanum í gær, nokkrum klukkustundum eftir flugtak.

Týnd flugvél reyndi að snúa við

Ný gögn benda til þess að farþegaþota Malaysian Airlines sem hvarf í gærkvöldi hafi reynt að snúa við áður en hún hvarf.

Farþegavél hvarf af ratsjá

Víðtæk leit stendur yfir á Suður- Kínahafi að farþegaþotu Malaysian Airlines sem hvarf af radar í gærkvöldi. 239 manns voru um borð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×