Fótbolti

Tottenham tapaði 1-3 á heimavelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Tottenham er í slæmum málum eftir 1-3 tap á móti Benfica á heimavelli í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar á White Hart Lane í kvöld.

Gylfi Þór Sigurðsson var ekki í leikmannahópi Tottenham í þessum leik en pirringurinn var ansi mikill hjá leikmönnum liðsins þegar ekkert gekk í þessum leik.

Tim Sherwood, knattspyrnustjóri Tottenham, var ekki aðeins ósáttur við sína leikmenn heldur einnig Jorge Jesus þjálfara Benfica-liðsins sem lék sér að stríða honum þegar Benfica komst í 3-1.

Varnarmaðurinn Luisao skoraði tvö síðustu mörk Benfica í leiknum og þau fóru langt með að koma hans liði áfram í átta liða úrslitin en seinni leikurinn fer fram í Portúgal í næstu viku.

Rodrigo kom Benfica í 1-0 á 29. mínútu eftir stungusendingu frá Ruben Amorim og Luisao kom portúgalska liðinu í 2-0 á 58. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Ruben Amorim.

Christian Eriksen minnkaði muninn með flottu marki beint úr aukaspyrnu á 64. mínútu en Luisao innsiglaði sigurinn tuttugu mínútum síðar þegar hann fylgdi á eftir skoti sem Hugo Lloris varði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×