Innlent

Viðræðuslit dragi úr trúverðugleika

Elimar Hauksson skrifar
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins telur að það dragi úr trúverðugleika stjórnvalda að leggja fram þingsályktunartillögu um slit viðræðna við Evrópusambandið, svo skömmu eftir að skýrsla um málið var lögð fyrir Alþingi.

Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu aðildarviðræðna við ESB var kynnt í vikunni og enn er beðið eftir skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, sem unnin er að beiðni aðila vinnumarkaðarins, um málið en hennar er að vænta í apríl. Utanríkisráðherra hefur sagt að skýrslan hafi verið pöntuð af fylgjendum ESB. Þorsteinn segir það hins vegar af og frá, fyrirtæki innan Samtaka atvinnulífsins séu ekki sammála um að aðild að ESB sé besta lausnin.

„Sú yfirlýsing er afskaplega furðuleg. Það eru mjög skiptar skoðanir um gagnsemi aðildar á meðal okkar samtaka og það að við séum að panta einhverja niðurstöðu fyrirfram er algerlega fjarstæðukennt,“ segir Þorsteinn.

Hann telur að mun skynsamlegra hefði verið að vinna úr niðurstöðum skýrslu Hagfræðistofnunar og bíða skýrslu Alþjóðamálastofnunar áður en lokað sé dyrum á þann möguleika að ganga í Evrópusambandið.

„Það er alveg ljóst að það að leggja fram þingsályktunartillögu um slit svo skömmu eftir að skýrsla Hagfræðistofnunar kemur fram, eykur ekki trúverðugleikann á því að hún hafi verið ætluð til stuðnings við málefnalega umræðu um þetta mikilvæga málefni,“ segir Þorsteinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×