Fótbolti

Mourinho: City mætir versta Barcelona-liðinu í mörg ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho og Carles Puyol.
Jose Mourinho og Carles Puyol. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, telur að Manchester City eigi möguleika á því að slá út Barcelona en liðið mætast í kvöld í fyrri leik sínum í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Mourinho er ekki mikill vinur Barcelona eftir hatrammar rimmur undanfarin ár en hann þekkir liðið hinsvegar mjög vel. Barcelona vann Meistaradeildina 2009 og 2011 en hafa ekki komist upp úr undanúrslitunum síðan þá.

„Auðvitað segir sagan okkur að Barcelona sé sigurstranglegra liðið en liðið hefur samt sýnt það á þessu tímabili að liðið er ekki sama lið og síðustu ár," sagði Jose Mourinho við ITV.

„Þeir hafa að sjálfsögðu Lionel Messi sem er mjög sérstakur leikmaður en þeir hafa líka fleiri sterka leikmenn. Ég tel samt að þetta sé versta Barcelona-liðið í mörg ár," sagði Mourinho.

Leikur Manchester City og Barcelona hefst klukkan 19.45 í kvöld og er í beinni á Stöð 2 Sport. Klukkan 19.10 hefst upphitun Hjartar Hjartarsonar fyrir leiki kvöldsins en þá mætast einnig Bayer Leverkusen og Paris Saint Germain.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×