Fótbolti

Barcelona með stæl inn í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/NordicPhotos/Getty
Barcelona er komið í undanúrslit spænska konungsbikarsins í fótbolta eftir 5-1 sigur á Levante í kvöld í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum bikarkeppninnar. Barcelona vann samanlagt 9-2.

Alexis Sánchez skoraði tvö mörk fyrir Barcelona í kvöld en þeir Adriano Correia, Carles Puyol og Cesc Fàbregas voru líka meðal markaskorara.

Sergi Roberto skoraði reyndar sjálfsmark á 9. mínútu og setti smá spennu í einvígið en þeir Adriano Correia (28. mínúta) og Carles Puyol (44. mínúta) komu Barcelona yfir fyrir hálfleik.

Alexis Sánchez skoraði síðan tvö mörk á fyrstu sjö mínútunum í seinni hálfleiknum og gerði endanlega út um leikinn. Það var síðan Cesc Fàbregas sem skoraði fimmta markið og síðasta mark Börsunga á 68. mínútu.

Lionel Messi, Gerard Piqué og Jordi Alba voru á bekknum allan tímann, Neymar er meiddur og Xavi var ekki í hóp. Andrés Iniesta spilaði bara fyrri hálfleikinn en það skipti ekki máli því það var aðeins formsatriði fyrir Börsunga að ganga frá sæti sínu í undanúrslitunum eftir 4-1 útisigur í fyrri leiknum.

Real Madrid komst áfram í undanúrslitin í gær og Atlético Madrid fyrr í kvöld eftir 2-1 sigur á Athletic Bilbao. Atlético Madrid vann fyrri leikinn 1-0 á heimavelli en lenti 1-0 undir í kvöld.

Raúl García og Diego Costa skoruðu báðir í seinni hálfleik og tryggðu Atlético leik á móti nágrönnum sínum í Real Madrid í undanúrslitunum.

Barcelona mætir annaðhvort Real Sociedad eða Racing de Santander í undanúrslitunum en Real Sociedad vann fyrri leikinn 3-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×