Körfubolti

Helena besti leikmaður umferðarinnar í MEL-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Mynd/Daníel
Helena Sverrisdóttir var valin besti leikmaður 18. umferðar í Mið-Evrópu deild kvenna í körfubolta fyrir frammistöðu sína með ungverska liðinu Aluinvent DVTK Miskolc.

Í Mið-Evrópu deild spila lið frá Ungverjalandi, Slóvakíu og Króatíu og þar á meðal er gamla lið Helenu, Good Angels Kosice frá Slóvakíu.

Helena skoraði 16 stig og tók 8 fráköst í flottum útisigri Aluinvent DVTK Miskolc á UNIQA Euroleasing Sopron í vikunni en íslenski landsliðsfyrirliðinn hitti meðal annars úr 4 af 5 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Helena var einnig með tvær stoðsendingar og tvo stolna bolta.

Helena var líka meðal þeirra þriggja sem voru tilnefndar fyrir umferðina á undan en endaði þá í 3. sæti í kjörinu fyrir 17. umferð MEL-deildarinnar. Helena var þá með 31 stig en í tapleik á móti PINKK Pécsi 424.

Helena tók hinsvegar fyrsta sætið í kjörinu núna og var á undan þeim Yelenu Leuchanka, miðherja hjá Good Angels Kosice og Dorottyu Győri miðherja PINKK Pécsi 424.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×