Körfubolti

Mark Cuban sektaður enn á ný

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Mark Cuban og Barack Obama í heimsókn Dallas Mavericks í Hvíta húsið
Mark Cuban og Barack Obama í heimsókn Dallas Mavericks í Hvíta húsið Mynd/Gettyimages
Hinn skrautlegi eigandi Dallas Mavericks, Mark Cuban var í gær sektaður um 100.000$ eða rúmlega 11,5 milljónir íslenskra króna fyrir hegðun sína eftir tap gegn Los Angeles Clippers. Cuban hellti sér yfir dómara leiksins í lok leiksins eftir að Dallas glutraði niður sautján stiga forskoti í fjórða leikhluta.

Cuban sem þykir ansi skrautlegur eigandi hefur alls borgað rúmlega 1.5 milljón bandaríkjadollara í sektir á 14 ára tíma sínum sem eigandi Dallas.

Cuban viðurkenndi í fjölmiðlum fyrir stuttu að hann ætlaði að næla sér í eina sekt áður en yfirmaður NBA-deildarinnar, David Stern hætti í sínu starfi eftir 30 ár. Stern hefur þótt ansi strangur sem yfirmaður deildarinnar og var gjarn að sekta menn fyrir hin ýmsu athæfi.

Cuban ætti þó að geta greitt sektina án þess að veskið finni mikið til en Cuban er verðmetinn á 2,5 milljarð bandaríkjadollara.

Mark CubanMynd/Gettyimages



Fleiri fréttir

Sjá meira


×