Fótbolti

Real Madrid vann eyðimerkur-einvígið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jesé skoraði sigurmark Real Madrid.
Jesé skoraði sigurmark Real Madrid. Mynd/NordicPhotos/Getty
Stórliðin Real Madrid frá Spáni og Paris Saint-Germain frá Frakklandi mættust í dag í æfingaleik í Katar en bæði liðin voru í æfingabúðum við Persaflóann um áramótin. Real Madrid vann leikinn 1-0 og kom markið í fyrri hálfleik.

Það er búist við miklu af báðum liðunum í útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu á nýju ári en Real og PSG unnu bæði sannfærandi sigra í sínum riðlum og röðuðu inn mörkum í leikjum sínum.

Jesé skoraði eina mark leiksins strax á 18. mínútu eftir sendingu frá Álvaro Morata. Jesé byrjaði í sóknarlínunni ásamt þeim Morata, Cristiano Ronaldo og José Rodríguez en þeir Xabi Alonso og Asier Illarramendi voru síðan saman á miðjunni.

JoséRodríguezog KaremBenzema áttu báðir stangarskot í leiknum en heilt yfir fékk franska liðið fleiri færi í leiknum.

Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, skipti öllum ellefu byrjunarliðsmönnum sínum útaf í hálfleik en Laurent Blanc, þjálfari PSG, leyfði Edinson Cavani að spila í rúman klukkutíma og tók Zlatan Ibrahimović ekki af velli fyrr en á 73. mínútu.

Þetta er samt þriðji leikurinn á stuttum tíma þar sem Cristiano Ronaldo hefur betur á móti Zlatan Ibrahimović en þeir mættust eins og frægt var í umspilinu um laust sæti á HM í Brasilíu.

PSG mætir Brest í franska bikarnum á sunnudaginn en Real Madrid spilar við Celta Vigo á mánudaginn kemur í spænsku deildinni.

Mynd/NordicPhotos/Getty
Mynd/NordicPhotos/Getty
Mynd/NordicPhotos/Getty
Mynd/NordicPhotos/Getty
Mynd/NordicPhotos/Getty
Mynd/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×