Körfubolti

Drekarnir unnu skyldusigur á heimavelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson.
Hlynur Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson. Mynd/Valli
Sundsvall Dragons er aftur með fimmtíu prósent sigurhlutfall í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta eftir 19 stiga sigur á KFUM Nässjö, 92-73, í 20. umferð sænsku deildarinnar í kvöld. Drekarnir hafa nú unnið tíu af tuttugu leikjum sínum

Jakob Örn Sigurðarson var nálægt þrennunni með 15 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar og Hlynur Bæringsson bætti við 12 stigum og 8 fráköstum.

Mikael Lindquist átti flottan leik ekki síst í fyrri hálfleiknum þar sem að hann skoraði 17 af 22 stigum sínum.

KFUM Nässjö byrjaði betur og var 24-20 yfir eftir fyrsta leikhlutann en frábær annar leikhluti skilaði Drekunum tíu stiga forskoti í hálfleik, 46-36.

Nässjö vann þriðja leikhlutann 22-15 og minnkaði muninn í þrjú stig fyrir lokaleikhlutann. Þar var hinsvegar bara eitt lið á vellinum og Sundsvall tryggði sér öruggan sigur með því að vinna fjórða leikhlutann 31-15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×