Fótbolti

Bayern niðurgreiðir "dýra" Arsenal-miða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bastian Schweinsteiger með Meistaradeildarbikarinn.
Bastian Schweinsteiger með Meistaradeildarbikarinn. Mynd/NordicPhotos/Getty
Evrópumeistarar Bayern München og Arsenal mætast í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í næsta mánuði og Þjóðverjarnir ætla að bregðast við háu miðaverði á Emirates-leikvanginum með því að greiða niður miðaverð fyrir stuðningsmenn sína.

Fyrri leikur liðanna fer fram á Emirates-leikvanginum 19. febrúar og miðarnir á leikinn kosta 62 pund eða um tólf þúsund krónur.

Bayern ætlar að sjá til þess að þeir stuðningsmenn sem ferðast til Englands þurfi bara að borga 45 evrur (37 pund) fyrir miða á umræddan leik og mun þýska félagið því að borga 25 pund af hverjum miða eða tæplega fimm þúsund íslenskar krónur.

„Þetta er lítill þakklætisvottur fyrir frábæran stuðning á árinu 2013," sagði í tilkynningu frá Bæjurum en verð á heimaleiki Bayern München er frá 15 evrur í stæðum upp í 70 evrur í lúxussætum.

Bayern München vann fimm titla á síðasta ári og er líklegt til að gefa stuðningsmönnum sínum enn fleiri tækifæri til að fagna á árinu 2014. Fyrst þarf þó liðið að komast í gegnum Arsenal sem er eins og flestir vita á toppnum í ensku úrvalsdeildinni.

Bæjarar fagna í London síðasta vor.Mynd/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×