Körfubolti

Aldrei að vita hvað Útlendingastofnun dettur í hug að gera

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óli fagnar í lok síðasta tímabils.
Óli fagnar í lok síðasta tímabils.
Grindvíkingar sætta sig ekki við neina meðalmennsku þegar kemur að bandarískum leikmönnum liðsins og hafa þegar sent tvo heim og spilað stóran hluta tímabilsins útlendingalausir.

Bestu bandarísku leikmenn úrvalsdeildar karla hafa spilað í Grindavíkurbúningnum undanfarin tvö tímabil. J‘Nathan Bullock (2011-12) og Aaron Broussard (2012-13) hjálpuðu Grindavík að vinna Íslandsmeistaratitilinn tvö síðustu ár. Eftirmaður þeirra þarf að fylla stórt skarð og það hefur ekki gengið vel hingað til.

„Ég held að metið í Grindavík séu fimm bandarískir leikmenn á einu tímabili og við stefnum bara ótrauðir á að slá það,“ sagði Óli Björn Björgvinsson í óvenju léttum tón þegar Fréttablaðið spurði hann út í vandræðin með bandaríska leikmenn liðsins.

Þriðji bandaríski leikmaður Grindavíkur í vetur náði ekki að spila eina einustu mínútu áður en menn fóru að leita að þeim fjórða.

„Hann er ekkert kominn til landsins og við fáum engin leyfi fyrir hann. Við vorum búnir að semja við hann þannig séð en svo kom það bara í ljós að hann fær ekki leyfi,“ segir Óli Björn og ástæðan? „Hann er ekki með hreint sakavottorð. Það er búið að afskrifa hann og það verður dregið aftur í Kanalotteríinu í kvöld. Við erum búnir að kaupa miða,“ segir Óli.

Grindavíkurliðið hefur unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum í Dominos-deildinni og er því ekkert í slæmum málum þrátt fyrir útlendingavandræði.

„Ég skal viðurkenna það að ég var stútfullur að bjartsýni eftir síðustu leikina fyrir Íslandsmótið. Svo vorum við bara flysjaðir í fyrsta leik á móti KR og erum ekki búnir að vera góðir síðan. Það hefur alveg gríðarleg áhrif þegar það er alltaf verið að koma með nýja útlendinga og kenna þeim kerfin,“ segir Óli.

Grindvíkingar hafa verið heppnari en flestir í útlendingamálum sínum síðustu tvö ár en lukkan hefur yfirgefið þá í vetur. „Jón Gauti (Dagbjartsson stjórnarmaður) sagði að við værum búnir að vera tvö ár í paradís en við erum bara núna á botninum í helvíti í þessu. Það er samt enginn bilbugur á okkur, við höldum bara áfram að leita og dæla þeim inn og út aftur,“ segir Óli Björn.

Grindvíkingar hafa þegar ákveðið að þrengja hópinn. „Við viljum helst ekki vera að taka gutta út úr skóla eins og var með þá fyrstu tvo. Við leitum frekar að gæja sem er orðinn 26 til 28 ára og er kominn með einhverja reynslu af atvinnumennsku,“ segir Óli.

„Það er ljóst að við verðum örugglega Kanalausir í næstu tveimur leikjum. Það tekur orðið heilmikinn tíma að ná öllum þessum pappírum saman og svo veit maður aldrei hvað þeim í Útlendingastofnun dettur í hug að gera,“ segir Óli.

Grindvíkingar hafa gengið í gegnum svona tímabil áður og hafa alltaf verið óhræddir við að breyta til þegar atvinnumennirnir standa sig ekki.

Jóhann Árni Ólafsson, Þorleifur Ólafsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson hafa allir skilað flottum tölum í leikjum liðsins að undanförnu.

„Þeir eru búnir að sýna það útlendingalausir að þetta er hörkulið. Ef við fáum góðan útlending sem smellur inn í þetta hjá okkur þá lítur þetta vel út. Við ætlum að festa bikarinn hérna í Grindavík, það er ekkert öðru vísi,“ segir Óli.

Það er þó ekki hægt að vinna Íslandsbikarinn til eignar þó að lið vinni hann þrjú ár í röð.

„Ég kaupi þá bara svona bikar til að eiga ef við fáum hann ekki,“ segir Óli Björn sem er bjartsýnn á veturinn þrátt fyrir öll útlendingavandræðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×