Körfubolti

Það verður mikið skorið niður í vetur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hlynur segir að félagið verði að setja sér ný markmið í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið á liðinu.
Hlynur segir að félagið verði að setja sér ný markmið í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið á liðinu. fréttablaðið/valli
„Þeir hafa víst verið að draga lappirnar með að borga reikninga,“ segir Hlynur Bæringsson, leikmaður sænska liðsins Sundsvall Dragons, en greint var frá því í gær að félagið væri í miklum fjárhagsvandræðum. Jakob Sigurðarson og Ægir Þór Steinarsson leika einnig með félaginu.

Forsvarsmenn sænska félagsins hafa þrjá mánuði til stefnu til þess að koma fjárhagnum á gott ról. Annars fær liðið ekki þátttökurétt í deild þeirra bestu í Svíþjóð á næstu leiktíð.

„Verði einhverjar útistandandi skuldir þá verður umsókninni um keppnisleyfi hafnað,“ segir Mats Carlson, forseti sænska körfuknattleikssambandsins við staðarblaðið í Sundsvall.

Félagið hefur gert samning við bæjaryfirvöld í Sundsvall um útleigu á íþróttahöll félagsins. Reiknað er með að félagið fái jafnvirði tæplega fjögurra milljóna króna í gegnum þann samning. Skuldir félagsins eru þó taldar nema um fjórfaldri þeirri upphæð.

„Við leikmenn höfum aðeins fundið fyrir þessum vandræðum en samt ekkert til að tala um. Þeir skulda mér ekki neitt en stundum munar einhverjum dögum hvenær laun koma inn. Það er algengt í þessum bransa.“

Hlynur segir að félagið hafi misst sterka styrktaraðila og það sé aðalástæðan fyrir þessum vandræðum.

„Þeir eru að fara að spara mikið og ég held að það verði mikið skorið niður í vetur,“ segir Hlynur en einn besti leikmaður liðsins, Alex Wesby, er þegar farinn frá félaginu til að laga fjárhaginn.

„Það er mikið högg fyrir félagið að hann sé farinn. Hann er búinn að vera hérna í sex ár og er líklega besti leikmaður deildarinnar. Einn af þeim hið minnsta. Þar er samt sparnaður fyrir félagið. Svo fór annar Kani fyrr og svo hefði þriðji átt að koma. Það er því í raun og veru verið að skera niður þrjá leikmenn sem áttu að koma.“

Þrátt fyrir þetta áfall og að yfirvofandi sé enn meiri niðurskurður eru leikmenn félagsins rólegir.

„Mórallinn er góður í klefanum. Þetta verður öðruvísi áskorun núna og við erum ekki líklegir í að verða meistarar. Væntingarnar verða eðlilega minni en við ætluðum okkur titilinn. Það er samt sigurhugsun í liðinu og við teljum okkur geta unnið alla,“ segir

Hlynur og bætir við að félagið verði bara að setja sér ný markmið en liðið er í fjórða sæti í dag.

„Þetta gæti orðið jákvætt fyrir félagið. Liðið réttir sig af og rífur ímyndina upp. Það er ekki bara titillinn sem skiptir máli. Það er að njóta þess að spila allt árið. Það er hægt að gera margt jákvætt þó svo það komi ekki titill.“

Ef allt færi á versta veg þá sér Hlynur það ekki í spilunum að hann kæmi heim til þess að spila.

„Það eru afar litlar líkur á því að ég kæmi heim ef ég þyrfti að finna mér nýtt félag. Það yrði ekki fyrsti valkostur. Auðvitað hugsar maður samt um það enda er þetta ekki fyrsta íþróttafélagið sem lendir í vandræðum. Félagið segir samt að við eigum ekki að þurfa að hafa áhyggjur. Félagið sé ekki á leið á hausinn. Ég verð að trúa því þar til annað kemur í ljós.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×