Körfubolti

Búinn að bíða lengi eftir svona manni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnar Á. Nathanaelsson
Ragnar Á. Nathanaelsson Mynd/Daníel
Hlynur Bæringsson er búinn að fá hjálp undir körfunni og í fyrsta sinn í langan tíma er hann ekki hæsti maðurinn í íslenska liðinu. Hinn 22 ára gamli og 218 sentimetra hái Ragnar Á. Nathanaelsson er að stíga sín fyrstu spor með A-landsliðinu.

„Það munar miklu þótt það séu ekki nema nokkrar mínútur í leik þar sem Raggi getur komið og breytt einhverju. Það er erfitt fyrir alla að skjóta yfir mann sem er 2,20 metrar á hæð,“ segir Hlynur.

„Ég er búinn að bíða lengi eftir manni eins og Ragga. Það hefur verið okkar veikleiki í gegnum tíðina að við höfum ekki náð að passa körfuna okkar nógu vel,“ segir Hlynur og bætir við:

„Hann er að læra hratt strákurinn. Ég segi kannski ekki að hann sé kominn á þetta getustig sem við þurfum að hann sé en hann lærir mjög hratt hvað varðar allar hreyfingar og það að vera á hreyfingu,“ segir Hlynur og það leiðist heldur engum við hlið hins skemmtilega Ragga Nat.

„Þetta hlýtur að verða uppáhaldsíþróttamaður þjóðarinnar einhvern daginn,“ segir Hlynur í léttum tón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×