Fótbolti

Ætla að verja forskotið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Atli Guðnason.
Atli Guðnason. Mynd/Valli
FH-ingar taka á móti Ekranas frá Litháen í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í Kaplakrika í kvöld. FH-ingar standa vel að vígi eftir 1-0 sigur í fyrri leiknum í Litháen.

Atli Guðnason, kantmaður FH, reiknar með erfiðum leik og að FH-ingar verði varnarsinnaðir í leiknum.

„Við verðum að verja þetta forskot sem við höfum og nýta þær sóknir sem okkur bíðst. Við förum ekki í blússandi sóknarbolta í Evrópukeppni vitandi að andstæðingurinn er sterkur,“ segir Atli. Hann bendir á hið augljósa. Haldi FH-ingar marki sínu hreinu þá fari liðið áfram.

FH hefur verið reglulegur gestur í Evrópukeppnum undanfarin ár. Atli reiknar engu að síður með að smá Evrópustress geri vart við sig á morgun enda stundin stór.

„Ætli maður finni ekki fyrir því þegar maður mætir í Krikann? Þessi leikur skiptir okkur gríðarlega miklu máli og það myndi hjálpa okkur mikið ef FH-ingar og aðrir myndu mæta á völlinn og styðja okkur. Oft var þörf og nú var nauðsyn.“

Öll íslensku karlaliðin slógu út andstæðinga sína í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar og nú geta FH-ingar gert slíkt hið sama. Atla líst vel á það.

„Eigum við ekki að gera þetta að Evrópusumrinu mikla?“

Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×