Körfubolti

Jón Arnór mögulega sterkasti varnarmaður liðsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Arnór, Benedikt og Ingi Þór Steinþórsson á góðri stundu á æfingu hjá KR.
Jón Arnór, Benedikt og Ingi Þór Steinþórsson á góðri stundu á æfingu hjá KR. Fréttablaðið/Valli

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs í Þorlákshöfn, þjálfaði Jón Arnór Stefánsson í yngri flokkum KR. Hann segir um sögulegan viðburð að ræða þegar Jón Arnór og félagar í CAI Zaragoza mæta Real Madrid.

„Spænska deildin er næststerkasta deildin í heiminum, á eftir NBA,“ segir Benedikt. Þótt spænsk lið verði ekki Evrópumeistarar á hverju ári séu liðin afar jöfn að styrkleika.

„Það eru bara góð lið í spænska körfuboltanum,“ segir Benendikt, en þekktust þeirra eru Barcelona og Real Madrid sem Jón Arnór mætir í kvöld. Benedikt segir Jón Arnór klárlega einn af leiðtogum liðsins.

„Þó að hann sé ekki gamall er hann kominn á fertugsaldurinn,“ segir Benedikt um körfuboltamanninn, sem er 31 árs. Jón var þriðji stigahæsti leikmaður CAI Zaragoza í oddaleiknum gegn Valencia. Benedikt minnir þó á að tölfræðin segi aðeins hálfa söguna.

„Það er ekki alltaf að marka hvað hann skorar því hann er liðsspilari fram í fingurgóma. Hann er ekkert að eltast við einhver skot eða stig,“ segir Benedikt. Þá vilji einnig oft gleymast að helminginn af leiktímanum spili lið í vörn.

„Jón er alltaf í lykilhlutverki varnarmegin og hann er mögulega sterkasti varnarmaður liðsins.“

Varðandi möguleika Jóns Arnórs og félaga segir Benedikt að Valencia sé einnig hörkusterkt lið. Real Madrid sé þó klárlega erfiðari andstæðingur. Hann ætlar að spara yfirlýsingarnar um möguleika Zaragoza-liðsins og njóta þess að fylgjast með.

Sportið á Vísi er á Facebook. Fylgstu með.


Tengdar fréttir

Jón Arnór og félagar í undanúrslit

Jón Arnór Stefánsson skoraði 13 stig fyrir CAI Zaragoza þegar liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum spænska körfuboltans með 83-77 útisigri á Valencia.

Það var allt brjálað í höllinni

"Þetta var yndislegt kvöld í alla staði. Þetta var hörkuleikur. Við vorum góðir frá byrjun og sterkari í lokin. Maður hafði einhvern veginn alltaf trú á því að við myndum taka þetta," sagði sigurreifur Jón Arnór Stefánsson í samtali við Vísi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×