Skoðun

Já, en Einar Kristinn

Ingólfur H. Ingólfsson skrifar
Í grein sem Einar K. Guðfinnson alþingismaður skrifar í Fréttablaðið 4. apríl gerir hann grein fyrir tillögu Sjálfstæðisflokksins um skattalegan afslátt fyrir þá sem vilja lækka íbúðalán sín með svokölluðum höfuðstólsgreiðslum.

Þessi tillaga markar tímamót. Vart er hægt að hugsa sér einfaldari og áhrifaríkari aðgerð af hálfu ríkisins til skuldalækkunar yfirskuldsettra heimila en skattfríðindi til þeirra sem lækka skuldir sínar með greiðslum inn á höfuðstól lána, varanlega og til frambúðar. Ég segi því skírt og klárt já við þessari tillögu.

En Einar Kristinn, af hverju að hengja á þessa ágætu tillögu hugmynd um að nota eina frjálsa lífeyrissparnaðinn til þess að greiða niður höfuðstól lána?

Það er óþarft vegna þess að við erum sem þjóðfélag ekki lengur í bráðri neyð. Hafi það verið réttlætanlegt að leyfa fólki að taka út séreignarsparnað sinn til þess að fleyta sér yfir sker og halda uppi neyslu í kreppu til að örva hagvöxt, þá eru þær forsendur ekki lengur fyrir hendi.

Og hugmyndin er skaðleg vegna þess að þetta er okkar dýrmætasti sparnaður. Honum er ætlað að tryggja okkur mannsæmandi eftirlaun. Og þessi sparnaður er ekki aðfararhæfur þótt allar aðrar eignir okkar geti lent undir hamrinum. Enginn sparnaður er jafn vel til þess fallinn að ná tilætluðum árangri og þessi séreignarsparnaður.

Verði þeirri leið haldið opinni, að nota þessa séreign í eitthvað annað en lífeyrissparnað, er verið að dæma þá sem hana velja, og eru í flestum tilvikum hinir skuldsettustu, til fátæktar öll eftirlaunaárin. Almannatryggingar og lífeyrissjóðir munu aðeins sjá okkur fyrir grunnlífeyri eða að hámarki um helmingi af fyrri tekjum í framtíðinni. Frjálsa lífeyrissparnaðinum, séreignarsparnaðinum, er ætlað að brúa bilið þannig að eftirlaunin verði sem næst því sem launatekjurnar voru og við getum haldið lífsgæðum og reisn í ellinni. Í ljósi þess hve illa lífeyrissjóðirnir standa eftir hrunið verðum við að verja frjálsa lífeyrissparnaðinn með öllum tiltækum ráðum.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×