Skoðun

Sjálfstæðið

Þorsteinn Eggertsson skrifar
Evrópusambandið er ekki ríki, heldur samtök sjálfstæðra þjóða. EFTA og Sameinuðu þjóðirnar eru, sömuleiðis, samtök sjálfstæðra þjóða. Bandaríkin eru, hins vegar, ríki eða ríkjasamband.

Íslendingar töpuðu sjálfstæði sínu í hendur Norðmanna árið 1262 og árið 1428 létu Norðmenn Dani fá Ísland í skiptum fyrir eigið sjálfstæði. Ísland varð síðan sjálfstætt, að nafninu til, árið 1918 og varð sjálfstætt lýðveldi, að nafninu til, árið 1944. Þá var landið að vísu hernumið og erlendur her yfirgaf það ekki fyrr en árið 2006. Þá komst á einhvers konar sjálfstæði; útrásarvíkingatíminn – sem líktist Sturlungaöld að ýmsu leyti. Það tímabil ríkti fram á haustið 2008 þegar efnahagshrunið skall á.

Ísland er eitt af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna og getur því samþykkt eða synjað ýmsum sáttmálum sem þaðan koma, á sama hátt og önnur sjálfstæð ríki. Það sama á við um Evrópusambandið – upp að vissu marki. Íslendingar eru aðilar að svokölluðum EES-samningi (eins og aðildarríki ESB eru), en hefur þó engin áhrif á þann samning. Til þess þyrfti það að vera í ESB. Hins vegar heyrist rödd Íslands oft hjá Sameinuðu þjóðunum, enda eru Íslendingar aðilar að þeim samtökum.

Margir halda að Íslendingar missi sjálfstæði sitt ef Ísland gengur í ESB. Það er svona álíka rökrétt og ef Sandgerðingar og Garðmenn misstu sjálfsögð íbúaréttindi við að gerast aðilar að sameinuðu sveitarfélagi sem eftirleiðis héti Suðurnes.

Sum af ríkjunum innan Evrópusambandsins hafa farið fullfrjálslega með frelsi sitt, s.s. Grikkland og Spánn. Auðvitað er það, fyrst og fremst, þeirra vandamál, en önnur ríki ESB hafa þá reynt að koma þessum óráðsíuríkjum til hjálpar. Þau þyrftu t.d. ekki að rétta Rússum hjálparhönd ef illa færi að ára fyrir þeim fjárhagslega, einfaldlega vegna þess að Rússland er ekki eitt af aðildarríkjum ESB. Og hvort Íslendingar þyrftu að taka upp evru ef þeir gengju í ESB? Það er þeim algerlega í sjálfsvald sett.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×