Skoðun

Auðveldari mánaðamót

Hanna Birna Kristjánsdóttir skrifar
Um hver einustu mánaðamót stendur alltof stór hópur Íslendinga frammi fyrir erfiðleikum og óvissu vegna þess að launin duga einfaldlega ekki fyrir lífsnauðsynjum, ef marka má nýja lífskjararannsókn Hagstofu Íslands.

Þessi staða er alvarleg en það þýðir ekki að engin sé vonin. Stærsta einstaka tækifærið til breytinga fæst eftir nokkra daga þegar kosið verður til Alþingis. Niðurstaða þeirra kosninga mun hafa úrslitaáhrif á það hvort við höldum áfram á þessari braut eða komumst á annan og betri stað.

Lægri álögur

Lykilatriðið er að auka ráðstöfunartekjur alls almennings í landinu. Það geta stjórnmálamenn fyrst og fremst gert með lægri opinberum álögum og gjöldum. Lækkun tekjuskatts skiptir þar miklu en lægri tollar og vörugjöld á nauðsynjar eins og matvöru, barnaföt og bensín munu einnig breyta miklu. Lækkun höfuðstóls húsnæðislána og léttari afborganir, samhliða afnámi stimpilgjalds og tækifæri til að fara frá verðtryggðu láni yfir í óverðtryggt mun einnig skipta miklu.

Samhliða slíkum aðgerðum fyrir heimilin verður að huga að hvetjandi leiðum svo fyrirtækin geti vaxið frekar. Með lægri álögum vegna mannaráðninga, aukinni sátt við atvinnulífið og samstöðu um uppbyggingu í stað stöðnunar mun tækifærum fjölga og hagvöxtur aukast. Þannig forgangsröðun nýrrar ríkisstjórnar mun ekki einungis nýtast hverri einustu fjölskyldu, heldur samfélaginu í heild þar sem slík sókn mun skapa traustari grundvöll undir þá velferð sem við öll viljum búa við.

Fólkið, fjölskyldurnar og fyrirtækin í landinu eiga því mikla von. Með raunhæfum lausnum, aukinni sátt og trú á framtíðinni getum við tryggt að langflest heimili nái endum saman og kvíði því ekki að ráðstöfunartekjur dugi fyrir útgjöldum hvers mánaðar. Það gerist þegar stjórnmálamenn fara að einblína á það sem virkilega skiptir máli fyrir fólkið í landinu.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×