Körfubolti

Tap hjá Helenu og félögum í Mið-Evrópu deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Mynd/Daníel
Helena Sverrisdóttir og félagar hennar í Aluinvent DVTK Miskolc urðu að sætta sig við fimm stiga tap á móti SBK Samorin, 76-81, í uppgjöri tveggja ungverska liða í Mið-Evrópu deildinni í körfubolta.

Helena var þriðja stigahæst í sínu liði í þessum leik en hún var með 14 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar á 30 mínútum. Helena skoraði ekki þrist í kvöld en hitti úr 5 af 9 tveggja stiga skotum sínum í leiknum.

Miskolc var 25-20 yfir eftir fyrsta leikhlutann og tveimur stigum yfir í hálfleik, 41-39. Samorin var hinsvegar sterkara í seinni hálfleiknum þar sem leikmenn Miskolc réðu illa við, slóvakíska framherjann Romanu Vynuchalova (22 stig) og bandaríska miðherjann Amy Jaeschke (22 stig), undir körfunni.

Lettinn Liene Jansone var stigahæst hjá Miskolc með 21 stig. Miskolc-liðið hefur unnið 5 af fyrstu 8 leikjum sínum í Mið-Evrópu deildinni og missti Samorin upp fyrir sig með þessu tapi. Gamla lið Helenu, Good Angels Kosice frá Slóvakíu, er efst með 11 sigra í 12 leikjum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×