Bíó og sjónvarp

„Klárlega biðarinnar og kuldans virði“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Æstir aðdáendur Hringadróttinssögu biðu tímunum saman  fyrir utan afþreyingarbúðina Nexus í nótt. Þetta gerðu þeir til að freista þess að næla sér í miða á sérstaka forsýningu á kvikmyndinni Hobbitanum tvö. 

Hátt í tvö hundruð manns biðu í röð fyrir utan Nexus þegar fréttastofu bar að garði klukkan rúmlega hálf ellefu í dag. Hörðustu aðdáendurnir höfðu þá beðið fyrir utan búðina frá því klukkan fjögur um nóttina. Mikil spenna var í loftinu og aðdáendur létu slabbið ekki á sig fá. Þeir klæddu sig eftir veðri og höfðu með sér heitt kakó og klappstóla.

Það er ljóst að J.R.R. Tolkien, höfundur Hringadróttinssögu og Hobbitans, á sér stóran aðdáendahóp á Íslandi. Guðmundur Stefánsson er einn þeirra, en hann fékk sér húðflúr með texta úr sögunum.

„Myndirnar eru það stór hluti af mínu lífi að ég ákvað bara að fá mér þetta tattú fyrir nokkrum árum,“ segir Guðmundur, sem kom beinustu leið af næturvakt í röðina og var mættur klukkan átta í morgun. „Þetta er klárlega biðarinnar og kuldans virði. Ekki spurning.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×